Evrópa gæti átt í erfiðleikum með að virkja nægilega marga hermenn eða framleiða nægilega mikið af vopnum með skjótum hætti ef það kæmi til beinna átaka við Rússland. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu.
Franska stofnunin um alþjóðasamskipti (IFRI), sem er ein fremsta hugveita heims, benti á veikleika Evrópu ef til kæmi að átök yrðu við Rússland, sem höfundar lýsa sem „langtímaógn“.
Evrópa þarf að sýna pólitískan vilja og „samhangandi efnahagslega varnarstefnu“ til að búa sig undir hugsanleg átök við Rússland á næstu fimm árum, segir í skýrslunni sem ber heitið „Evrópa-Rússland: Yfirlit yfir valdajafnvægi“.
Thomas Gomart, forstjóri IFRI, sagði í samtali við AFP að mikilvægt væri að „greina styrkleika okkar og veikleika“ og benti á „alvarlegar gloppur í hernaðargetu“ Evrópu.
„Evrópulönd hafa nauðsynlega burði, það er að segja efnahagsleg úrræði, hernaðargetu og tækniþekkingu til að standa gegn Rússlandi fyrir árið 2030, að því gefnu – og það er augljóslega mikilvægasta orðið – að þau sýni pólitískan vilja,“ sagði hann.
Lönd Evrópusambandsins hafa aukið útgjöld til hermála í því skyni að halda aftur af Rússlandi síðan Vladimír Pútín hóf allsherjarinnrás í Úkraínu í febrúar 2022.
Í síðasta mánuði sagði Fabien Mandon, yfirmaður franska herráðsins, að landið yrði að vera tilbúið á næstu þremur eða fjórum árum fyrir átök við Rússland, sem „gæti freistast til að halda stríðinu áfram í álfunni okkar“.
Þrátt fyrir að Evrópa hafi yfirburði yfir Rússlandi á lofti og á sjó, þá glímir landher hennar við „alvarlegan skort á dýpt og skotfærabirgðum“, segir í skýrslunni, þar sem einnig er bent á reynslu Rússa af því að virkja herlið.
„Ástæða er til að efast um pólitískt, hernaðarlegt og aðgerðabundið aðgengi að fjölda evrópskra hermanna ef til átaka kæmi,“ segir í skýrslunni.
„Frá og með árinu 2025 hafa 20 af 30 evrópskum NATO- eða ESB-ríkjum atvinnulandher með færri en 15.000 hermönnum,“ segir í rannsókninni.
„Fyrir utan nokkur framlínuríki sem gætu virkjað varalið og þjóðvarðlið á eigin landsvæði, væru hin ófær um að mynda meira en nokkrar herdeildir.“
Meginþungi stórra herdeilda myndi hvíla á herðum „kannski sex landa“, þar á meðal Frakklands, Bretlands og Þýskalands.
Evrópa hefur einnig átt í erfiðleikum með að breyta auknum hernaðarútgjöldum í „áþreifanlega iðnaðaraukningu“, bætir skýrslan við og bendir á flugskeytageirann sem dæmi.
Meðalfjöldi árlegra pantana hjá evrópskum varnarfyrirtækjum hefur yfirleitt verið í hundruðum fyrir sóknarvopn og í nokkrum þúsundum fyrir loft- og flugskeytavarnir.
„Slíkar pantanir draga upp dapurlega mynd af framleiðslugetu Evrópu á flugskeytum,“ segir í skýrslunni. „Hún er langt undir því sem hernaðarátök við Rússland myndu krefjast.“
Skýrsluhöfundarnir sögðu að Evrópa ætti að halda áfram að styðja Úkraínu, sem hefur öðlast „einstaka reynslu af hefðbundnum hernaði“, og að fella hana inn í öryggisinnviði álfunnar.
Öryggi Evrópu byggist á tveimur stoðum, skuldbindingu Bandaríkjanna við NATO og árangri Úkraínu á vígvellinum, sögðu þeir.
„Þegar Úkraínu tekst að standast rússnesku ógnina varðandi tilvist sína vísar hún restinni af Evrópu veginn, sem nú er háð henni fyrir öryggi sitt næstum jafn mikið og öfugt,“ segir í skýrslunni.
En ef annaðhvort skuldbinding Bandaríkjanna við öryggi Evrópu dvínar eða andspyrna Úkraínu brestur myndu líkurnar á beinum hernaðarátökum við Rússland „aukast verulega“.
Óháð því hvort til stórfelldra átaka við Rússland komi, mun Evrópa áfram standa frammi fyrir „viðvarandi rússneskri fjölþáttaógn“ með upplýsingóreiðu, leynilegum aðgerðum og netárásum.
„Viðbrögð Evrópu hafa að mestu verið varnarsinnuð og of varkár,“ segir í skýrslunni. „Hún verður nú að herða sig.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
