Sérstakt dómsmál liggur nú fyrir Héraðsdómi Óslóar til úrlausnar þar sem lögmenn Mariusar Borg Høiby, hins vægast sagt umdeilda sonar Mette-Maritar krónprinsessu og stjúpsonar Hákonar krónprins, reyna að fá dómstólinn til að dæma bann við nýútkominni bók blaðamannanna Torgeirs Krokfjord og Øisteins Norum Monsen á Dagbladet um líferni og meinta kókaínsölu Høibys á götum Óslóar.
Bókin, Hvite striper, sorte får, eða Hvítar línur, svartir sauðir, sem hið fornfræga Aschehoug-forlag í Ósló gefur út, fjallar um hluta þeirra afbrota sem Høiby hefur nú verið ákærður fyrir og mun svara til saka fyrir í aðalmeðferð sem hefst fyrir Héraðsdómi Óslóar 3. febrúar og ráðgert er að standi fram í miðjan marsmánuð 2026.
Í bókinni ræða höfundarnir við fjölda lögreglumanna sem nafnlaust, stöðu sinnar vegna, koma fram og segja frá afskiptum og eftirliti lögreglu gagnvart Høibyog greina frá því að óeinkennisklæddir lögreglumenn við eftirlit á Karls Jóhannsgötu, götunni sem liggur gegnum alla miðborg Óslóar og að konungshöllinni, hafi ekki trúað sínum eigin augum þegar þeir sáu Høiby selja kókaín þar á götunni.
Þetta kveðast höfundarnir hafa eftir öruggum heimildum og hafi þeir margkannað sannleiksgildi upplýsinganna á meðan Ida Melbo Øystese, lögreglustjóri í Ósló, vísaði kókaínsölu krónprinsessusonarins á Karls Jóhannsgötu alfarið á bug úr vitnastúku héraðsdóms í dag.
Fullyrti Øystese að það væru staðlausir stafir að lögregla hefði séð til Høiby við téða iðju auk þess sem Unni Grøndal upplýsingafulltrúi lögreglu sendi norska ríkisútvarpinu NRK tölvupóst þessu til staðfestingar 21. október þar sem svo segir:
„Okkur er kunnugt um að í bókinni sé því lýst að lögregla hafi séð til hans selja kókaín við Karl Jóhann. Við viljum taka það fram, út frá okkar upplýsingum, að lögreglumenn hafi séð til hans undir áhrifum, en ekki við sölu fíkniefna.“
Við málsmeðferðina spurði Jørgen Vangsnes, lögmaður Aschehoug-forlagsins, lögreglustjóra beint hvort lögreglan byggi yfir upplýsingum um hvort Høiby hefði selt fíkniefni.
„Þær upplýsingar eru undirlagðar þagnarskyldu minni og um þær get ég ekki tjáð mig,“ svaraði Øystese lögreglustjóri og á sömu lund svaraði hún spurningu lögmannsins um hvort lögreglumenn hefðu orðið vitni að kókaínsölu Høiby einhvers staðar annars staðar í miðbæ Óslóar.
Spurði Vangsnes þá hvernig á því stæði að lögreglustjóri bæri við þagnarskyldu og gæti ekkert tjáð sig um hvort lögregla hefði séð til Høiby selja efni annars staðar í miðborginni á meðan Øystese svaraði spurningu um meinta sölumennsku sonar verðandi Noregsdrottningar á Karls Jóhannsgötu án nokkurra mótbára um þagnarskyldu.
„Þetta er það mat sem við höfum slegið föstu, beinhörð málsmeðferð hvað þetta mál snertir þar sem við höfum valið að gefa aðeins þessar upplýsingar. Lengra en það get ég ekki gengið,“ sagði lögreglustjóri í héraðsdómi í dag.
Øystese synjaði NRK um viðtal í kjölfar vitnisburðar hennar en Vangsnes lögmaður Aschehoug sagði í lokaræðu sinni fyrir héraðsdómi að það sem þar gerðist í dag hefði einmitt undirstrikað mikilvægi bókarinnar. „Í henni er dregin upp skýr mynd af lögregluumdæmi sem velur kerfisbundið frá hverju það vill segja án þess að þau mörk séu rökstudd á málefnalegan hátt,“ sagði Vangsnes.
Sjálfur hefur Høiby ekki látið sjá sig í réttarsalnum við aðalmeðferðina.
„Þegar sækjandi gerir tilraun til þess að stöðva útgáfu bókar á þeirri forsendu að ranglega sé sagt frá honum í bókinni skyldi maður ætla að hann mætti á staðinn. Það vill hann ekki,“ sagði Vangsnes enn fremur.
Þungavigtarefni í bókinni er fullyrðingin um að lögregla hafi séð Høiby selja kókaín á Karls Jóhannsgötu og látið undir höfuð leggjast að stofna til refsimáls.
„Við höfum okkar upplýsingar beint frá heimildarmanni í innstu viðjum lögreglunnar auk þess sem við ræddum við aðra heimildarmenn sem kunnugt var um upplýsingarnar,“ sagði Krokfjord, annar höfundanna, fyrir héraðsdómi, og lýsti því hvernig þeir Monsen hefðu tví- og þríkannað sannleiksgildi upplýsinganna um kókaínsölu Høiby.
„Høiby á ekki að sæta ásökunum fyrir það sem hann ekki hefur gert,“ segir Elias Christensen, einn lögmanna manns sem sett hefur norska konungdæmið nánast á hliðina, meðal annars með alvarlegum atburðum sem áttu sér stað á heimili fyrrverandi kærustu hans í fyrrasumar, en Christensen vill enn fremur meina að bók blaðamannanna sé afþreyingarefni sem Aschehoug hafi gengið allt of langt í að markaðssetja á kostnað sonar krónprinsessunnar.
„Þær ósönnu ásakanir sem settar eru fram mót Høiby veikja réttarstöðu hans svo ástæða er til að hafa áhyggjur,“ sagði Christensen við aðalmeðferðina en sjálfur vísar Høiby því alfarið á bug að hafa nokkurn tímann selt kókaín á Karls Jóhannsgötu og benda lögmenn hans á hljóðupptöku er afsanni þessar fullyrðingar blaðamannanna en sú upptaka er af samtali sem tveir lögreglumenn áttu við Høiby haustið 2023 og viðruðu þar áhyggjur sínar af gangi mála. Var upptakan í heild sinni leikin í héraðsdómi.
Norska Séð & heyrt birti á sínum tíma textaendurrit hluta þessarar upptöku og sagði Vangsnes að ástæða væri til að nefna það sérstaklega að frásögn bókar blaðamannanna byggði ekki á þeirri upptöku heldur vandaðri heimildavinnu höfundanna.
Röddum lögreglumannanna sem ræða við Høiby var breytt og nöfn þeirra hulin bak við hávært píp fyrir héraðsdómi en lögreglan í Ósló er þeirrar skoðunar að öðrum verkefnum hennar sé stefnt í voða sé svo ekki gert. NRK breytti á sama hátt hluta upptökunnar sem það setti í loftið.
Lögmenn Høiby kölluðu Johan Laurits Tønnesson, prófessor í heimildagildi prósa, það er að segja óbundins lauss máls, til sem vitni og lýsti hann heimildagildi sumra frásagna blaðamannanna sem „hneisu“ og er dómari spurði hann út í afleiðingu þessa sagði prófessorinn að væri höndunum kastað til við slíka heimildavinnslu, er hér væri til umfjöllunar, yrði útkoman mun rýrari og ótrúverðugri heimild en ella.
Komist Héraðsdómur Óslóar að þeirri niðurstöðu að bannað verði að selja bókina á núverandi formi mun sú niðurstaða að mati Vangsnes lögmanns leiða til mikillar gengisfellingar rannsóknarblaðamennsku sem hefur veigamikla þýðingu í samfélaginu.
Trine Skei Grande, formaður samtaka norskra bókaútgefenda, segir við NRK að nauðsynlegt sé að styðja við Aschehoug-forlagið í málinu, samtökin líti á réttarhöldin sem stórfellda atlögu að tjáningarfrelsi.
„Mér finnst það alveg út í hött að menn reyni að stöðva útgáfu bókar árið 2025,“ segir Grande.