Norski sjóðurinn hafnar billjón dala launapakka Musks

Elon Musk er nú þegar ríkasti maður heims.
Elon Musk er nú þegar ríkasti maður heims. AFP

Norski olíusjóðurinn, sem er einn af 10 stærstu hluthöfum í fyrirtækinu Tesla, greindi frá því í dag að hann myndi greiða atkvæði gegn fyrirhuguðum launapakka rafbílaframleiðandans fyrir forstjórann Elon Musk, sem gæti numið meira en einni billjón dala, sem jafngildir um 126 billjónum króna eða 126 þúsund milljörðum króna. 

Hluthafar Tesla munu greiða atkvæði um launapakkann á fundi í Austin í Texas á fimmtudaginn.

„Þótt við kunnum að meta þau verulegu verðmæti sem sköpuð hafa verið undir framsýnni stjórn herra Musks, höfum við áhyggjur af heildarumfangi pakkans, útvötnun og skorti á mótvægisaðgerðum vegna áhættu tengdri lykilstarfsmanni, í samræmi við afstöðu okkar til starfskjara stjórnenda,“ segir Norges Bank Investment Management í tilkynningu.

„Við munum halda áfram að leita eftir uppbyggilegum viðræðum við Tesla um þetta og önnur mál,“ segir sjóðurinn enn fremur.

Háð ákveðnum skilyrðum

Sjóðurinn, sem er metinn á 2,1 billjón dala og er sá stærsti í heimi, átti 1,14 prósent hlutafjár í Tesla þann 30. júní.

Fyrirhugaði launapakkinn gæti veitt Musk, sem er nú þegar ríkasti maður heims, allt að 12 prósent af viðbótarhlutafé í Tesla ef ákveðnum áföngum er náð.

Samningurinn er háður því að Tesla nái að minnsta kosti 8,5 billjóna dala markaðsvirði fyrir árið 2035.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert