Berjast á móti Trump og breyta kjördæmum

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu.
Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu. AFP

Íbúar Kaliforníuríkis hafa samþykkt, með yfirgnæfandi meirihluta, að endurskilgreina kjördæmi sín. Demókratar höfðu kallað eftir atkvæðagreiðslunni til að bregðast við tilraunum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta til að hagræða kjördæmaskipan í ríkjum þar sem repúblikanar fara með völd.

Talningu er ekki enn lokið en fyrstu tölur gefa vísbendingar um að tillagan hljóti mikinn meirihluta atkvæða.

Niðurstaðan er mikill sigur fyrir Gavin Newsom, ríkisstjóra Kaliforníuríkis, en eftir að fyrstu tölur lágu fyrir sagði hann: „Við erum stolt af því starfi sem íbúar Kaliforníuríkis unnu í kvöld til að senda kröftug skilaboð til óvinsælasta forseta í nútímasögunni.“

Sambærileg breyting í Texas

Newsom og bandamenn hans báðu kjósendur fyrir kosningarnar um að samþykkja tímabundna endurskilgreiningu kjördæmanna sem gæti orðið til þess að Demókrataflokkurinn fengi fimm sæti til viðbótar í kosningum til Bandaríkjaþings á næsta ári.

Repúblikanar hafa kvartað yfir því að um sé að ræða valdarán sem myndi svipta kjósendur flokksins í Kaliforníu kosningarétti.

Demókratar sögðust hins vegar einfaldlega vera að reyna að jafna leikinn eftir að repúblikanar í Texas þvinguðu í gegn sína eigin endurskilgreiningu kjördæmamarka til að viðhalda naumum meirihluta á Bandaríkjaþingi sem hefur hingað til gefið Trump frjálsar hendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert