Dönsku höfundarréttarsamtökin Koda hafa höfðað mál gegn bandarísku gervigreindar-tónlistarþjónustunni Suno. Koda heldur því fram að tæknifyrirtækið, sem sérhæfir sig í skapandi gervigreind, hafi þjálfað gervigreindarlíkan sitt á verkum úr efnisskrá Koda en um leið leynt umfangi og uppruna þjálfunargagnanna – og þannig látið hjá líða að gefa upp hvaða verk voru notuð og hvernig.
Greint var frá málsókninni í fréttatilkynningu frá Koda í gær. Þar er haft eftir Gorm Arildsen forstjóra Koda að gervigreindin geti verið spennandi tól við tónlistarsköpun en nýsköpun geti þó ekki byggst á þýfi. „Suno hefur tekið sköpunarverk félagsmanna okkar og matað vélar sínar á þeim án samþykkis, gagnsæis eða endurgjalds. Það er þjófnaður – og það ógnar framtíð tónlistarinnar,“ segir Arildsen.
Koda kveðst búa yfir sönnunum um að Suno hafi þjálfað líkan sitt á höfundarréttarvörðum verkum – þar á meðal tónlist eftir vinsæla listamenn á borð við Aqua, MØ og Christopher – án leyfis, gagnsæis eða greiðslu.
„Í öllum tilvikum hefur Koda áþreifanlegar sannanir fyrir því að brotið hafi verið á höfundarrétti hvers verks. Málið er höfðað fyrir hönd allra félagsmanna Koda til að vernda höfunda og menningu og tryggja sjálfbært tónlistarumhverfi. Þetta er í fyrsta sinn sem dönsk höfundarréttarsamtök höfða mál gegn gervigreindarþjónustu,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur jafnframt fram að Suno hafi ekki leitað eftir því að fá leyfi fyrir notkun tónlistarinnar og ekki greitt neitt endurgjald. Nú geti tónlist sem „samin“ er með gervigreindartóli Suno líkt eftir höfundarréttarvarinni tónlist sem þýðir að hún getur keppt beint við einmitt þau verk sem misnotuð voru.
„Okkur þykir óásættanlegt að það þurfi að leita til dómstóla til að fá Suno og sambærilegar gervigreindarþjónustur til að greiða fyrir tónlistina sem þær nota til að byggja upp þjónustu sem þær hagnast á. Ef iðnaðurinn vill hlúa að framtíð hæfileikaríkra listamanna sem skapa nýja tónlist verðum við að vernda þá. Þetta eru þeir aðilar sem eru viðkvæmastir fyrir því að verða undir í valdabaráttunni við stóru tæknifyrirtækin. Við hjá Koda neitum að láta reiknirit móta menningarsögu okkar,“ segir Gorm Arildsen.
Í nýrri skýrslu er áætlað að gervigreindartónlist eins og sú sem Suno framleiðir muni innan fárra ára taka til sín stóran hluta af þeim tekjugrunni sem gerir það mögulegt að skapa nýja danska tónlist. Ef núverandi þróun í gervigreind heldur áfram stendur dönsk tónlist frammi fyrir sögulegu tekjutapi upp á 28 prósent fyrir árið 2030, segir í tilkynningu.
Á síðasta ári var Suno metið á 500 milljónir dala – yfir 63 milljarða íslenskra króna. Því er spáð að verðmæti fyrirtækisins nái brátt tveimur milljörðum dala.
Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Stefs fagnar þessum tíðindum frá frændum okkar. „Ég er virkilega ánægð með að Danirnir hafi tekið þetta skref. Við þurfum fleiri svona mál til að fá sterk fordæmi. Þannig náum við þessum fyrirtækjum að samningaborðinu. Þó að við og fleiri höfundarréttarsamtök höfum sett skýrar línur varðandi leyfissamninga, að við séum tilbúin að veita leyfi, þá hafa þessi fyrirtæki ekki sýnt því neinn áhuga að reka löglega starfsemi og hafa þessi mál í lagi. Það þarf dómafordæmi til að sýna þeim að þau verði að bregðast við og sækja sér leyfi fyrir starfsemi sinni. Leyfin eru hugsuð til þess að þeir sem sköpuðu verkin fái greitt fyrir þessa afleiddu notkun.“
Umrætt dómsmál er hið fyrsta vegna gervigreindar og tónlistar á Norðurlöndunum að sögn Guðrúnar. Önnur höfundarréttarsamtök munu fylgjast grannt með því hvernig til tekst. Í þessu tilviki og í dómsmálum í Þýskalandi virðist hafa tekist að ná fram sönnunargögnum. Gervigreindarfyrirtækin hafi síðan hert varnir sínar og í dag sé orðið erfiðara að ná í slík gögn.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
/frimg/1/60/87/1608771.jpg)