Búist er við að flugumferð komist aftur í eðlilegt horf í Brussel í dag eftir að hún var stöðvuð í gærkvöldi vegna gruns um drónaflug á svæðinu. Stöðvunin varðaði um 80 flugferðir.
Flugumferð var einnig stöðvuð á flugvellinum í Charleroi, sem er næststærsti flugvöllur landsins á eftir flugvellinum í Brussel. Tæplega 500 farþegar þurftu að verja nóttinni í flugstöðinni vegna atviksins.
Dularfull drónaflug hafa valdið töfum á flugumferð í Evrópu nýverið, þar á meðal í Danmörku og Þýskalandi.
Um helgina tilkynntu belgísk yfirvöld að drónar hefðu sést á flugi yfir belgísku herstöðinni Kleine Brogel, sem talið er að geymi bandarísk kjarnorkuvopn. Leyniþjónusta belgíska hersins segist rannsaka málið.
Theo Francken, varnarmálaráðherra Belgíu, neitaði að skella sökinni á Rússland, en sagði aðgerðirnar líta út fyrir að hafa verið skipulagðar og framkvæmdar af „fagaðilum“.
„Það er verið að reyna að skapa hræðslu," sagði Francken. „Tilgangurinn er að skapa óstöðugleika."

