Frönsk kona um fertugt er í haldi lögreglunnar í Sviss eftir að lík sem hafði verið skorið í tvennt fannst á bökkum árinnar Saone í Fedry í Frakklandi, rétt við landamærin að Sviss.
Grunur er um að líkið sé af fyrrverandi leigusala konunnar sem hefur verið saknað frá því á föstudag, en ekki hafa verið borin kennsl á líkið með formlegum hætti.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að konan, sem býr í bænum Sainte-Croix í Sviss, sé grunuð um að hafa kveikt í heimili sínu síðastliðinn sunnudag og átt þátt í hvarfi leigusala síns. Hún er þó ekki með stöðu sakbornings enn sem komið er.
Konan var handtekin af landamæravörðum skömmu eftir að eldurinn kom upp á heimili hennar og færð til yfirheyrslu.
Líkið sem fannst skorið í tvennt var aðeins í nærbuxum og þakið hvítu efni. Brunasár voru á baki líksins, ásamt sárum á höfði, hálsi, handleggjum og brjóstkassa.
Samkvæmt fyrstu niðurstöðum krufningar lést maðurinn vegna blæðinga eftir stungusár í brjóstið en líkið virðist hafa verið skorið í tvennt eftir andlátið.
Lögreglan í Sviss vinnur að rannsókn málsins í samstarfi við frönsku lögregluna.

