Yfir 90 eru látnir eftir fellibylinn Kalmaegi á Filippseyjum. Áhrif hans voru mest í Cebu-héraði en þar hafa geisað verstu flóð í manna minnum.
Flóðvatn hafði runnið um bæi og borgir héraðsins í gær og tekið með sér bíla, kofa og jafnvel gríðarstóra flutningagáma.
Í morgun sagði Rhon Ramos, talsmaður Cebu, við AFP-fréttaveituna að 35 lík hefðu fundist á flóðasvæðum í Liloan, bæ í nágrenni við Cebu-borga, höfuðborg héraðsins, en þar með var tala látinna í héraðinu orðin 76 manns.
Fyrr um daginn hafði Rafaelito Alejandro, aðstoðarforstjóri almannavarna í Filippseyjum, staðfest að minnsta kosti 17 dauðsföll í öðrum héruðum.
„Það voru stórborgirnar sem urðu fyrir flóðunum, mjög þéttbýl svæði,“ sagði Alejandro í viðtali við útvarpsstöð á svæðinu og bætti við að 26 manns væri enn saknað.
