Erin Patterson, fimmtug áströlsk kona, sem dæmd var í lífstíðarfangelsi fyrir að bana þremur með eitruðum sveppum í september, hefur áfrýjað dómi sínum og segir réttarspjöll hafa átt sér stað við réttarhöld málsins.
Þetta kemur fram í dómsskjölum sem birt voru opinberlega í dag.
Patterson var dæmd í lífstíðarfangelsi með möguleika á reynslulausn eftir 33 ár.
Tólfskipaður kviðdómur fann hana seka um öll ákæruatriðin í júlí, þrefalt manndráp og tilraun til manndráps með því að hafa boðið tengdaforeldrum sínum og systur tengdaföðurins, prestsfrúnni Heather Wilkinson, ásamt hennar eiginmanni, prestinum Ian Wilkinson, til kvöldverðar og þar borið þeim steik fyllta grænserki (lat. Amanida phalloides), einni eitruðustu sveppategund heims.
Létust boðsgestir allir utan prestsins sem lá tvo mánuði á sjúkrahúsi.
Á mánudaginn greindu ástralskir miðlar frá því að Patterson hefði lagt fram áfrýjun sem hefði verið samþykkt af áfrýjunardómstólnum í Victoria-ríki í Ástralíu. Nú liggur hins vegar fyrir að áfrýjunin hefur vissulega verið lögð fram en hefur ekki verið samþykkt til efnislegrar meðferðar.
Í gögnum sem lögmaður Patterson lagði fram segir að „veruleg réttarspjöll“ hafi átt sér stað við réttarhöldin. Í gögnunum kemur meðal annars fram að „alvarlegt óreglulegt atvik“ hafi átt sér stað meðan kviðdómurinn var einangraður sem hafi „grafið undan trúverðugleika dómsins“. Ekki eru þó gefnar nánari útskýringar á atvikinu.
Lögmaðurinn sakar einnig ákæruvaldið um ósanngjarna og íþyngjandi yfirheyrslu og segir að dómari málsins hafi samþykkt sönnunargögn sem ekki tengdust málinu beint, á meðan öðrum mikilvægum gögnum hafi verið hafnað.
Þá hefur Patterson jafnframt óskað eftir því að vera ekki viðstödd ef munnleg meðferð fer fram vegna áfrýjunarinnar.
Ákæruvaldið hefur sjálft áfrýjað dómnum þar sem það telur refsinguna of væga.
Patteron hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og sagðist við réttarhöldin hafa eitrað matinn fyrir slysni.