Það er óhætt að fullyrða að fyrir ári höfðu fæstir New York-búar og Íslendingar heyrt Zhorans Mamdanis getið.
Nú er tíðin hins vegar önnur. Mamdani, sem hefur síðustu mánuði notið gífurlegra vinsælda á samfélagsmiðlum og er orðin einhver helsta vonarstjarna Demókrataflokksins, var í nótt kjörinn borgarstjóri New York.
Síðan hann var lýstur sigurvegari í nótt hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa en mörgum finnast vinstrisinnaðar áherslur Mamdanis, sem skilgreinir sig sem sósíalista, boða ferskan blæ í bandarískum stjórnmálum.
Á götum New York-borgar hefur fólk sungið nafn hans, opnað freyðivínsflöskur og grátið úr gleði. Þá hefur stjórnmálafólk og verkalýðsleiðtogar um allan heim fagnað sigri hans og eru Íslendingar þar ekki undanskildir.
Aðrir, þar á meðal Bandaríkjaforseti og ísraelskir ráðamenn, hafa hins vegar fordæmt Mamdani, sem er fyrsti músliminn til að hljóta kjör í borgarstjóraembættið, og kallað hann gyðingahatara.
Meðal þeirra sem hafa fagnað sigri Mamdanis ákaft eru leiðtogar á vinstri væng bandarískra stjórnmála.
Bernie Sanders, þingmaður og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, birti til að mynda mynd af sér með Mamdani á samfélagsmiðlinum X og skrifaði við hana að sigurinn hefði verið „eitt óvæntasta útspil í bandarískri stjórnmálasögu“.
„Já. Við getum myndað ríkisstjórn sem þjónar hagsmunum vinnandi fólks en ekki 1%,“ bætti Sanders við.
Þá óskaði Jeromy Corbyn, þingmaður og fyrrverandi leiðtogi breska verkamannaflokksins, Mamdani sömuleiðis til hamingju og sagði sigur hans sögulegan: „Ekki aðeins fyrir íbúa New York, heldur fyrir alla þá sem trúa því að mannúð og von geti haft betur.“
Meðal Íslendinga sem hafa fagnað sigrinum er Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, en hún birti brot úr sigurræðu Mamdanis sem hann flutti í nótt á Facebook-síðu sinni og skrifaði „Til hamingju og guði sé lof!“ við.
Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, birti þá pistil um sigurinn á Facebook og sagði hann merkilegan og stórkostlegan.
Það er þó greinilegt að tilvonandi borgarstjórinn er ekki allra en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur meðal annars kallað Mamdani kommúnista og gyðingahatara og nú hefur ísraelskur ráðherra kallað hann „Hamas-liða“.
Mamdani hefur allt frá því að hann var í háskóla talað fyrir málstað Palestínumanna og hefur síðustu mánuði fordæmt framgöngu Ísraels á Gasasvæðinu og talað um hana sem þjóðarmorð.
„Borgin sem eitt sinn stóð sem tákn um frelsi á heimsvísu hefur afhent Hamas-liða lyklana að henni,“ skrifaði Amichai Chikli, ráðherra fyrir málefni gyðinga utan Ísraels, á samfélagsmiðlinum X þegar sigur Mamdanis lá fyrir.
Hann hélt áfram og sagði að skoðanir Mamdanis væru „ekki fjarri skoðunum þeirra ofstækismanna í heilögu stríði sem fyrir 25 árum myrtu þrjú þúsund manns“, og vísaði þar til árásar Al-Kaída-hryðjuverkasamtakanna á tvíburaturnana 11. september 2001.
„New York verður aldrei söm aftur, sérstaklega ekki fyrir samfélag gyðinga þar,“ skrifaði Chikli.