Hjáseta kann að ráða úrslitum um aðild að ESB

Umræður um aðildartillögu að ESB héldu áfram á Alþingi í gær. Heimildarmenn Morgunblaðsins telja líklegt að aðild verði samþykkt með því að nokkrir þingmenn sitji hjá við atkvæðagreiðsluna.

Ekki virðist vera nægur stuðningur við tillögur formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn og aðild að Evrópusambandinu.

Verði hún felld kemur tillaga ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn til atkvæða. Heimildarmenn Morgunblaðsins reikna með að hún verði samþykkt, annaðhvort þannig að meirihluti þingmanna greiði henni atkvæði eða nægilega margir sitja hjá við atkvæðagreiðsluna til að hún nái samþykki.

Umræður hófust í gærmorgun um Evrópusambandsaðild. Er það önnur umræða og voru margir þingmenn á mælendaskrá.

Til umræðu er stjórnartillaga með lítils háttar breytingartillögu stjórnarmeirihlutans í utanríkismálanefnd.

Þá liggur fyrir tillaga Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá yrði það lagt fyrir þjóðina innan þriggja mánaða hvort sækja ætti um aðild. Fram hefur komið að þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkunum utan Samfylkingarinnar eru fylgjandi slíkri atkvæðagreiðslu.

Ljóst virðist þó að ekki náist meirihluti fyrir tillögunni. Ljóst er að allir 20 þingmenn Samfylkingarinnar styðja tillögu stjórnarinnar um að sækja um aðild. Siv Friðleifsdóttir og Guðmundur Steingrímsson, þingmenn Framsóknarflokksins, hafa lýst því yfir á þingi að þau styðji tillöguna.

Líklegt er talið, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að tveir þingmenn Borgarahreyfingarinnar muni styðja hana.

Spurning er hvað þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem hafa hallast að Evrópuaðild, gera að felldri tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Útlit er fyrir að þeir muni flestir greiða atkvæði gegn stjórnartillögunni, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir sem styður aðild að ESB vill þó ekki gefa upp hvað hún gerir fyrr en umræðan hafi farið fram í þinginu.

Gamalgróin andstaða við aðild er meðal þingmanna VG

Þá er spurning um þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Gamalgróin andstaða er þar innanbúðar gegn aðild að Evrópusambandinu en ríkisstjórnin sem flokkurinn á aðild að hefur það hins vegar á stefnuskrá sinni að sækja um.

Víst þykir að einhverjir úr þeirra hópi muni greiða atkvæði gegn tillögunni. Afstaða Ásmundar Einars Daðasonar og Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur hefur komið fram í umræðunni og vitað er að Atli Gíslason, Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason og Þuríður Backman eru einnig þung í taumi í þessu máli.

Ljóst þykir að sjö til átta þingmenn VG af fjórtán þurfa að styðja tillöguna til að hún fái hreinan meirihluta. Þingmaður annars flokks sem rætt var við taldi að forystumenn stjórnarinnar væru búnir að smala nógu mörgum heim til að tryggja nægan stuðning til að fá tillöguna samþykkta, annaðhvort með hreinum meirihluta þingmanna eða hjásetu þeirra tregu.

mlb.is/Eggert
mbl.is/Kristinn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær