„Bregðast trausti kjósenda"

Reuters

Herbert Sveinbjörnsson, formaður stjórnar Borgarahreyfingarinnar, segir það skýrt í sínum huga að ef þrír af fjórum þingmönnum hreyfingarinnar greiði atkvæði gegn aðildarviðræðum við Evrópusambandið þá séu þeir að bregðast trausti kjósenda Borgarahreyfingarinnar.

Borgarahreyfingin hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hreyfingin hafi gefið það skýrt út í aðdraganda kosninga að ekki væri hægt að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu nema að undangengnum aðildarviðræðum. Er þetta enn stefna Borgarahreyfingarinnar en lögum samkvæmt beri þingmönnum hreyfingarinnar hins vegar að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu.

Þrír af fjórum þingmönnum Borgarahreyfingarinnar vilja að Icesave-samningnum verði hafnað. Að öðrum kosti muni flokkurinn greiða atkvæði með tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu í ESB-málinu. Er Þráinn Bertelsson eini þingmaður Borgarahreyfingarinnar sem ekki hefur breytt um stefnu í málinu.

Herbert segir í samtali við mbl.is að hann muni hitta þingmenn Borgarahreyfingarinnar að máli í dag þar sem rætt verður um þessa ákvörðun þingmannanna, Þórs Saari, Birgittu Jónsdóttur og Margrétar Tryggvadóttur, og þau beðin um að útskýra mál sitt.

„Ef þau ætla að gera þetta þá eru þau, í mínum huga, klárlega að fara á bak orða sinna,"  segir Herbert.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær