Sibert undrast hörð viðbrögð Sigmundar

Anne Sibert
Anne Sibert mbl.is

Anne Sibert, hagfræðiprófessor og fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabankans, undrast hversu hörð viðbrögð grein sín um Icesave í evrópsku vefriti hefur vakið hér á landi. Hún segir óskiljanlegt að formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, reyni að koma í veg fyrir upplýsta umræðu um málið. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. 

Sigmundur skoraði á forsætisráðherra að víkja Sibert úr nefndinni vegna skrifa hennar um málið í vefritið VoxEU. Þar fullyrti hún að Íslendingar gætu vel staðið undir skuldbindingum vegna Icesave enda benti flest til að uppgjör þeirra næmi 14% af landsframleiðslu; ekki 50% eins og haldið hefur verið fram.

Sjálf sagðist Sibert  í samtali við RÚV eingöngu hafa ætlað að útskýra lagalegar hliðar deilunnar á hlutlausan hátt og undrast því viðbrögð Sigmundar. Hann hafi allan rétt til að vera sér ósammála, tjáningarfrelsið sé hins vegar hornsteinn upplýsts samfélags og því séu tilraunir hans til að stöðva umræður um málið óskiljanlegar.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær