Skoðanaskipti í Skuggaborg

Oddvitinn Jón Gnarr fær sér kaffi á fundi með samstarfsfólki …
Oddvitinn Jón Gnarr fær sér kaffi á fundi með samstarfsfólki sínu í Besta flokknum. Ómar Óskarsson

Mikil virkni hefur verið á vefsíðunni Betri Reykjavík  frá því hún var opnuð þann 1. júní. Á síðunni hefur verið komið upp s.k. Skuggaborg, þar sem ætlunin er að örva lýðræðislega umræðu og gefa borgarbúum tækifæri til að segja skoðun sína á hugmyndum um betrumbætta borg.  

2.896 notendur eru skráðir á síðunni  og 413 hugmyndir hafa verið settar fram í ýmsum flokkum. Rök sem gefin eru með eða á móti hugmyndunum eru 873 en einnig hafa fjölmargir kosið með eða á móti án þess að rökstyðja það frekar.

Á meðal umdeildra hugmynda sem settar eru fram í Skuggaborginni eru hvort tekjutengja eigi leikskólagjöld, en 189 eru fylgjandi því og 168 á móti. Einnig er umdeild hvort rétt sé að gefa frítt bókasafnsskírteini fyrir alla hjá Borgarbókasafninu, skjóta mávana og banna notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu.

Aðrar hugmyndir virðast njóta mikils fylgis, svo sem að gera Reykjavík að fyrstu rafbílaborg í heimi, en 145 eru fylgjandi þeirri tillögu og 25 á móti, og að gera stórátak í vistvæntum samgöngum í borginni. Einnig virðast notendur nokkuð sammála um að gera eigi fólki kleift að taka reiðhjól með í strætó og því að setja upp vefsíðu þar sem íbúar geti beðið um viðgerðir í hverfinu sínu, en 771 styðja þá hugmynd á meðan aðeins 5 eru á móti.

Besti flokkurinn segist vilja heyra í og taka mark á íbúum í Reykjavík og verða hugmyndir og rökræður sem settar eru fram á síðunni Betri Reykjavík hafðar til hliðsjónar á leynifundum Besta flokksins við Samfylkinguna um myndun meirihluta.  

Þá má nefna nokkrar spánnýjar hugmyndir s.s. að setja árabáta á Tjörnina Hljómskálagarðsmegin,  að setja upp hundagirðingu á Miklatúni og að hefja rannsókn á Orkuveitu Reykjavíkur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina