Gylfi Þór á leið til Hoffenheim - Fer í læknisskoðun á mánudaginn

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Reading.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Reading. readingfc.co.uk

Gylfi Þór Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður enska 1. deildarliðsins Reading er við það að ganga í raðir þýska liðsins Hoffenheim samkvæmt áreiðanlegum heimildum mbl.is. Reading hefur samþykkt að láta Gylfa fara til Hoffenheim en ekki liggur enn ljóst fyrir hvort um leigusamning er að ræða eða hvort þýska liðið ætli að kaupa hann.

Gylfi er þessa stundina að ræða við forráðamenn Hoffenheim um kaup og kjör en hann mun halda til Þýskalands á mánudag þar sem hann fer í læknisskoðun. Standist hann hana mun hann skrifa undir fjögurra ára samning við Hoffenheim, sem trónir á toppi þýsku Bundesligunnar eftir tvær umferðir.

Gylfi Þór lék þar með að öllum líkindum síðasta leik sinn fyrir Reading nú síðdegis þegar liðið hrósaði 2:1 útisigri á móti Leicester og hann kvaddi liðið með viðeigandi hætti en hann skoraði fyrra mark liðsins með glæsilegum hætti.

Forráðamenn Hoffenheim hafa fylgst grannt með Gylfa Þór og voru meðal annars á landsleik Íslendinga og Þjóðverja í undankeppni U21 ára landsliða þar sem Gylfi fór á kostum og skoraði eitt af mörkum Íslands í 4:1 sigri. Hoffenheim menn fengu einnig leyfi hjá forráðamönnum Reading til að fylgjast með Gylfa á æfingum með liðsins og sáu hann í leiknum á móti Leicester í dag.

Gríðarlegur uppgangur hefur verið hjá Hoffenheim. Fyrir 10 árum síðan var liðið í þýsku 5. deildinni en árið 2007 vann liðið sér sæti í efstu deild, Bundesligunni, og hefur verið í henni síðan. Á fyrsta tímabilinu hafnaði liðið í 7. sæti, á síðustu leiktíð varð það í 11. sæti og þegar tveimur umferðum er lokið á yfirstandandi leiktíð situr liðið á toppnum.

Gylfi Þór hefur verið í herbúðum Reading í sex ár og á síðustu leiktíð sprakk hann gjörsamlega út. Hann var markahæsti leikmaður liðsins með 20 mörk og var sá leikmaður sem lagði flest mörk upp og eftir tímabilið var hann útnefndur leikmaður ársins hjá félaginu. Hann gerði nýjan þriggja ára samning við Reading í sumar en nokkur ensk úrvalsdeildarlið hafa sýnt mikinn áhuga á að fá hann til liðs við sig en þau tilboð sem í hann hafa borist frá Englandi hafa verið allt og lá að mati Reading.

Gylfi lék sinn fyrsta A-landsleik í sumar þegar Íslendingar unnu öruggan sigur á Andorramönnum á Laugardalsvellinum og hann er í landsliðshópi Ólafs Jóhannessonar fyrir leikina gegn Norðmönnum og Dönum í undankeppni EM sem eru á næsta leyti.
 

Gylfi Þór Sigurðsson á æfingu með íslenska A-landsliðinu.
Gylfi Þór Sigurðsson á æfingu með íslenska A-landsliðinu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Íþróttir, Enski boltinn — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Þriðjudaginn 21. september

Mánudaginn 20. september

Sunnudaginn 19. september

Laugardaginn 18. september

Föstudaginn 17. september

Fimmtudaginn 16. september