Samningaviðræður ekki aðlögunarviðræður

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Reuters

„Við erum hér í aðlögun í hverri viku í krafti EES-samningsins. Við erum að innleiða reglur, jafnvel breyta hér lögum og samþykkja þingmál. Ég hef hins vegar sagt það algjörlega skýrt að samningaviðræðurnar eru ekki aðlögunarviðræður,“ sagði utanríkisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.

„Það sem út af stendur eru fyrst og fremst þau svið sem eru utan EES, það eru sjór og land,“ segir Össur Skarphéðinsson.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Össur út í nýútkomna skýrslu Evrópusambandsins um framgang aðildarviðræðnanna.

„Í henni er farið yfir hina ýmsu kafla sem eru til skimunar, eða eru í þessum rýnihópum, og í lok hvers kafla er samantekt um það sem ber í milli þegar skoðuð er íslensk löggjöf og regluverk Evrópusambandsins. Það á við um öll svið, allt frá heilbrigðissviði yfir til landbúnaðarsviðsins. Þar sem augljóst er að við Íslendingar uppfyllum ekki skilyrði þess að ganga inni í Evrópusambandið með núverandi landbúnaðarstefnu á Íslandi.“

Bjarni spurði hvort tossalisti muni safnast upp yfir öll þau atriði sem Ísland eigi eftir að framfylgja verði samþykkt að ganga í ESB. Og hversu mörg ár það muni taka að tæma þann lista. Telur Bjarni að það geti tekið um þrjú ár eða jafnvel lengri tíma, eftir að samningur hafi verið afgreiddur í þjóðaratkvæðagreiðslu og á þinginu.

Össur segir að það sé rétt hjá Bjarna að það afstaða ESB sé skýr varðandi það hvaða skilyrði sambandið telji að Ísland verði að uppfylla. „Það eru þessi atriði sem við munum semja um,“ segir Össur.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær