Ósafl bætir Bolvíkingum tjónið

Grjóthnullungur sem lenti á húsi í nálægð við grjótnámuna í …
Grjóthnullungur sem lenti á húsi í nálægð við grjótnámuna í dag. Margir stærri steinar komu fljúgandi inn í íbúðahverfið, sumir allt að 15 kíló. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Ósafl mun bæta íbúum á Bolungarvík tjón þeirra vegna misheppnaðrar sprengingar í grjótnámu í hlíð Traðarhyrnu í dag.

„Við hörmum þetta óhapp og þykir þetta mjög leiðinlegt. Við erum búnir að fara yfir verklagið og hvernig við munum vinna í framtíðinni. Við munum ganga í þau hús þar sem skemmdir urðu, heilsa upp á fólk, hreinsa til í görðunum og um skemmdir á húsum vísum við á tryggingafélagið okkar, sem er VÍS," segir Leó Jónsson, verkfræðingur hjá Ósafli.

Grjóti rigndi yfir þrettán hús í fjórum götum, göt komu á þök og rúður brotnuðu. Mildi þykir að enginn varð fyrir grjótinu. Enginn slasaðist vegna þessa.

Leó segir að ekki verði meira sprengt fyrr en búið er að útvega mottur til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, en ekki sé venja að nota slíkar mottur til að hefta grjótið við sprengingu þegar sprengt er úr hlíð eins og þarna er gert. Það sé venjulega aðeins gert þegar efni er sprengt upp á við, eins og þegar skurðir eru sprengdir.

Fulltrúar Ósafls funduðu með bæjartæknifræðingi Bolungarvíkurkaupstaðar í kvöld og eftir fundinn kvaðst Elías Jónatansson bæjarstjóri sannfærður um að hagsmuna íbúa yrði gætt í þessu máli og þeir fengju tjón sitt bætt. 

„Það er greinilegt að fyrirtækið ætlar sér að taka mjög fast á þessu máli og afgreiða það eins vel og hægt er. Ég finn mikinn vilja til að vanda sig og gera þetta vel," segir Elías.

Hann telur að hagsmuna og öryggis íbúa og húseigenda verði þannig gætt í framhaldinu.

Fjallað er ítarlega um þetta mál í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær