Slátruðu samkeppninni

Salan á svínabúunum tveimur hefur verið umdeild og sætt gagnrýni.
Salan á svínabúunum tveimur hefur verið umdeild og sætt gagnrýni.

„Við erum mjög ánægðir með að þetta skuli vera endanleg niðurstaða samkeppnisyfirvalda. Þetta var galin ráðstöfun og með þessu var verið að færa einni og sömu fjölskyldunni um 70% af allri svínarækt í landinu ,“ segir Kristinn Gylfi Jónsson, einn þeirra sem rak svínabúið að Brautarholti, en í dag staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála ógildingu Samkeppniseftirlitsins á yfirtöku Stjörnugríss á búinu.

„Við höfðum gagnrýnt Arion banka fyrir málsmeðferðina og teljum þetta vera áfellisdóm yfir bankanum í þessum málum,“ segir Kristinn.

Forsaga málsins er sú, að árið 2010 yfirtók Arion banki tvö svínabú, Brautarholt og Grísagarð. Þau voru síðan seld til stærsta svínaræktanda landsins, Stjörnugríss og eftir það var Stjörnugrís með um 70% allrar svínakjötsframleiðslu á landinu.

Kristinn segir að fljótlega eftir að Stjörnugrís tók við búinu að Brautarholti, hafi öllum gyltum búsins verið slátrað, en þær voru um 600 talsins.

„Með því var verið að slátra allri samkeppni, því að það verður erfitt fyrir nýjan aðila að koma upp nýjum gyltustofni, það er ekki nema fyrir mjög fjársterka aðila,“ segir Kristinn og segist ekki geta svarað til um hvort Brautarholtsbræðurnir muni koma aftur að rekstrinum. „En Stjörnugrís hlýtur að eiga að skila búinu í sama ástandi og tekið var við því.“

„Við teljum að þetta hafi verið ólöglegt; að eyðileggja fyrirtæki á sama tíma og samruni þess var til skoðunar hjá samkeppnisyfirvöldum þannig að það geti ekki virkað á samkeppnismarkaði.“

Kristinn segir að afleiðingar alls þessa sé mikil verðhækkun svínakjöts, en það hækkaði um 42% á einu ári, eftir að þessi samruni varð á markaði.

Aðstandendur Brautarholtsbúsins hafa farið fram á það við samkeppnisyfirvöld að rannsókn fari fram á því sem þeir telja lögbrot Arion banka og Stjörnugríss.

„Við teljum líka að bankinn hafi ekki tekið okkar mál til skoðunar eins og mál annarra fyrirtækja. Við fengum ekki að njóta þeirra skuldaúrræða sem um 700 fyrirtækjum hafa staðið til boða og förum fram á rannsókn á því.“ 

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær

Sunnudaginn 24. maí