Íþróttaakademía í grunnskóla

Eyjamenn eru miklir íþróttamenn. Nú á að samræma betur skóla ...
Eyjamenn eru miklir íþróttamenn. Nú á að samræma betur skóla og íþróttaþjálfun. mbl.is/Eggert

Ákveðið hefur verið að auka samstarf grunnskóla og íþróttahreyfingarinnar í Vestmannaeyjum. Samstarfið er nefnt Íþróttaakademía Grunnskóla Vestmannaeyja og verður rekið sem þróunarverkefni á vorönn.

Börn og unglingar í Vestmannaeyjum taka mikinn þátt í íþróttastarfi á vegum ÍBV. Starfið þar skarast að hluta til við skólastarfið vegna langra keppnisferða og æfinga.

Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar, segir að með þessu tilraunaverkefni sé verið að formfesta samstarf skólans og íþróttahreyfingarinnar á ýmsum sviðum.

Fyrirmyndin að Íþróttaakademíu Grunnskóla Vestmannaeyja er íþróttaakademía við Framhaldsskólann í Eyjum. Möguleikar á starfinu í grunnskólanum hafa verið kannaðir í vetur að frumkvæði Elliða Vignissonar bæjarstjóra.

Skipaður var stýrihópur til að undirbúa verkefnið og skilaði hann tillögum á síðasta fundi fræðslu- og menningarráðs.

Íþróttir sem valfag

Jón segir að íþróttaakademían rúmist innan núverandi vals nemenda í efstu bekkjum grunnskólans.

Nú munu allir nemendur 9. og 10. bekkjar sem hafa íþróttir í vali eiga kost á að velja íþróttaakademíuna sem valgrein. Þeir sem innritast í akademíuna þurfa að skrifa undir lífsstílssamning þar sem undirstrikað er að óheimilt sé að neyta vímuefna og krafa gerð um námsárangur og fyrirmyndarhegðun.

Þeim mun standa til boða alhliða þjálfun innan stundaskrár þar sem lögð verður áhersla á styrk, snerpu og teygjur. Fræðslufyrirlestrar verða haldnir reglulega.

Nemendum í knattspyrnu og handbolta mun standa til boða að fara í tækniæfingar einu sinni í viku en flestir þeirra sem eru með íþróttir í vali stunda þessar greinar.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær