Finnast úlfar kynþokkafullir

Hljómsveitina Úlfur Úlfur þekktu ekki margir fyrir nokkrum mánuðum en upp á síðkastið virðist sem ekki sé hægt að hlusta á útvarpið án þess að heyra lagið Ég er farinn af fyrstu plötu þríeykisins, Föstudagurinn langi, sem kom út í desember. Það er ýmislegt spennandi framundan hjá strákunum enda segjast þeir hugsa stórt.

Þeir Helgi Sæmundur Guðmundsson og Arnar Freyr Frostason stofnuðu hljómsveitina fyrir ári og síðasta sumar gekk Þorbjörn Einar Guðmundsson til liðs við þá félaga. „Við Arnar erum báðir frá Sauðárkróki og höfum verið að vinna saman í tónlistinni í 10 ár,“ segir Helgi. Arnar bætir við að þá hafi þeir byrjað að rappa saman en aðspurðir hvort þeir hafi tekið sér einhver listamannsnöfn, eins og flestir rapparar gera, kemur smá hik á þá. „Ég vil segja sem minnst um það,“ segir Helgi og strákarnir hlæja.

Helgi segist hafa dvalist í Reykjavík af og til síðan hann var 17 ára en flutt endanlega til borgarinnar fyrir tveimur árum. Arnar flutti fyrir fjórum árum og sjálfur kemur Þorbjörn frá Keflavík en hefur búið í Reykjavík í tvö ár.

Býsna auðvelt að koma sér á framfæri

Helgi segir þá félagana hlusta mikið á rapp – annað sé ekki hægt. „Við Arnar erum miklir Tom Waits aðdáendur og erum líka hrifnir af Nick Cave, Bruce Springsteen og fleira í þeim gír. Bjössi [Þorbjörn Einar] er mikið í moombahton og raftónlist.“

Helgi og Arnar skipuðu, ásamt þremur öðrum, hljómsveitina Bróðir Svartúlfs sem vann Músíktilraunir árið 2009. „Það var mikil hvatning fyrir okkur að vinna keppnina,“ segir Helgi og Arnar bætir við að sigurinn hafi hvatt þá til að gera eitthvað af alvöru. „Fyrir Músíktilraunir vorum við ekki mikið að reyna að koma okkur á framfæri en eftir að við unnum sáum við að þetta var hægt og að það var m.a.s. býsna auðvelt,“ segir hann en Bróðir Svartúlfs hefur nú lagt upp laupana.

Blaðamaður nefnir að þeir séu greinilega hrifnir af úlfum. „Okkur finnst úlfar svo sexý,“ útskýrir Helgi. Það sé aðalástæðan fyrir nafngift hljómsveitanna tveggja. „Svo vorum við tveir þegar nafnið var ákveðið og þannig varð Úlfur Úlfur til.“ Aðspurður segir hann þó ólíklegt að hljómsveitin hefði verið nefnd Úlfur Úlfur Úlfur hefði Þorbjörn á þessum tíma verið genginn til liðs við sveitina.

Verkaskiptingin í Úlfi Úlfi er þannig að Helgi og Arnar semja textana og sjá um að flytja þá en Þorbjörn og Helgi semja tónlistina. „Svo hef ég reynt að sjá um meirihlutann af grafíkvinnslunni og annað tengt hljómsveitinni eins og að bóka „gigg“. Ég er svona hálfgerður umboðsmaður sveitarinnar,“ segir Þorbjörn.

Platan til sölu og gefins

Athygli hefur vakið að á heimasíðu hljómveitarinnar er hægt að hlaða niður plötunni Föstudagurinn langi gjaldfrjálst. Hún er einnig til sölu á gogoyoko og tónlist.is fyrir þá sem vilja styrkja sveitina. Spurðir hví þeir hafi ákveðið að gefa hana segir Helgi ástæðuna þá að þar sem þeir gátu tekið plötuna upp heima hjá sér var kostnaðurinn lítill sem enginn. „Þetta er ódýr leið til að ná til sem flestra,“ segir Arnar. „Það eru næstum 2.000 manns búnir að ná í plötuna en á þessum tímapunkti væru 2.000 manns aldrei búnir að kaupa hana ef hún væri bara til sölu. Þetta var auðveld leið til að koma tónlistinni sem lengst og það er það sem skiptir öllu máli til að byrja með.“

Spurður hvort miklar vinsældir hljómsveitarinnar hafi komið á óvart segist Þorbjörn allan tímann hafa vitað að sú yrði raunin. „Bjössi var með plan alveg frá byrjun og það gjörbreyttist allt þegar hann kom inn í sveitina,“ segir Helgi. „Hann fór með hana upp á næsta „level“. Hann sparkar í rassinn á okkur og þekkir markaðinn býsna vel.“ Arnar viðurkennir að sig hafi alltaf grunað að Úlfur Úlfur gæti náð langt vegna þess hve Ísland sé lítið. „Maður þarf ekki að finna upp hjólið til að ná langt hér en þrátt fyrir það kemur þetta auðvitað á óvart.“

Þeir segja það afar góða tilfinningu að heyra lögin sín spiluð í útvarpinu og Arnar minnist á að hann hafi orðið gríðarlega glaður þegar hann heyrði lag með hljómsveitinni spilað í fyrsta skipti á öldum ljósvakans. „Ég komst í stuð,“ segir hann og hinir hlæja. „Það er mjög hressandi að heyra í sjálfum sér í útvarpinu.“

Hugsanlega besta tilfinning í heimi

Úlfur Úlfur hefur verið þétt bókaður undanfarna mánuði og er þessi helgi sú fyrsta í langan tíma þar sem þeir eru í fríi. „Það er búið að bóka okkur á stóra hluti í ár,“ segir Arnar leyndardómsfullur en strákarnir segjast ekki mega segja meira. Það verði einfaldlega að koma í ljós þegar nær dregur.

Þeir segjast vera byrjaðir að semja nýtt efni en vilji sem stendur einbeita sér að því að fylgja Föstudeginum langa eftir. „Við ætlum að gefa okkur góðan tíma í það og síðan reyna að koma okkur í betri aðstöðu,“ segir Helgi en platan var að miklu leyti tekin upp heima hjá honum og Arnari. „Við ætlum að reyna að gera næstu plötu miklu betri.“ Sú muni fylgja svipaðri stefnu og forverinn en „við þurfum að þróa „sándið“,“ segir Arnar.

Spurðir hvernig það sé að sjá fólk á tónleikum dansa við lögin þeirra og syngja með segir Arnar það hugsanlega vera bestu tilfinningu í heimi. Helgi minnist á tónleika sem þeir héldu á Akureyri um daginn. Þeir voru búnir að spila en voru beðnir um að taka uppklappslag. Þeir ákváðu að spila lag sem heitir Ég flýt sem sé einlægt lag sem þeim þyki mjög vænt um. „Það var mjög stór hópur af fólki sem kunni allan textann og öskraði með. Það er ein besta svona tilfinning sem ég hef fundið.“

Spurðir hvort þeir gætu hugsað sér að fara utan og spila og reyna að markaðssetja plötuna erlendis segjast þeir ekki hafa leitt hugann mikið að því. „Enn sem komið er þá er ég mjög sáttur á Íslandi. Við erum bara nýbyrjaðir,“ segir Arnar. „Við hugsum stórt en ekki sérstaklega langt.“

Þann 2. mars nk. munu strákarnir halda mikinn fagnað á Faktorý. Arnar og Helgi eiga báðir afmæli í lok febrúar og að auki munu þeir halda upp á 10 ára samstarfsafmæli þeirra tveggja og eins árs afmæli hljómsveitarinnar. Frítt verður inn og lofa strákarnir góðum gestum og miklu fjöri.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær