Fréttir skrifaðar beint á Netið allan daginn

Nýr fréttavefur Morgunblaðsins var opnaður á Netinu nú á miðnætti. Vefurinn verður öllum opinn og birtast þar helstu fréttir dagsins af innlendum og erlendum vettvangi, bæði fréttir Morgunblaðsins og fréttir sem sérstaklega eru skrifaðar fyrir netútgáfuna.

Fréttaskrif hefjast kl. sex að morgni og standa fram á kvöld. Þá verða fréttir skrifaðar á vefinn laugardaga og sunnudaga. Á forsíðu fréttavefsins birtast á hverjum morgni valdar fréttir úr Morgunblaðinu þann daginn auk allra frétta sem skrifaðar eru á netdeild yfir daginn. Nýjustu fréttirnar birtast með fyrirsögn og ágripstexta en færast svo neðar á síðuna eftir því sem á daginn líður þar til fyrirsögnin ein stendur eftir. Neðst í flestum fréttum er tengill í frekari frásögn. Tengillinn Öll fréttin vísar í frétt sem skrifuð er fyrir netútgáfuna en Frétt Morgunblaðsins í frétt úr Morgunblaðinu. Viðkomandi fréttir koma upp í rammanum á miðri síðunni. Ef fleiri fréttir hafa birst um sama mál undanfarna daga kemur listi yfir þær neðst í fréttinni. Í nokkrum tilfellum eru einnig fréttir úr Morgunblaðinu lengra aftur í tímann, svo lesandinn geti glöggvað sig á bakgrunni mála. Til að fá aftur upp fréttalistann er nóg að smella á Til baka-hnappinn neðst á síðunni, eða í Back-hnapp viðkomandi vefskoðara. Á síðunum eru svonefndir flettirammar, Hvað viltu skoða?, til að auðvelda notanda að ferðast um vefinn. Þeir eru einnig neðst á hverri síðu. Þar má velja milli fréttaflokka, innlendra frétta, erlendra frétta, viðskipta- og verfrétta sem eru undir athafnalífsvalliðnum, og íþróttafréttir. Sé einhver þessara liða valinn kemur upp síða með netfréttum viðkomandi flokks. Í rammanum vinstra megin á hverri síðu er einnig að finna tengil undir yfirskriftinni Blaðið í dag. Þar má fá fréttir Morgunblaðsins þann daginn í viðkomandi málaflokki. Í vinstri dálki á hverri síðu er einnig liður sem kallast Helstu mál og með því að smella á viðkomandi tengingar má komast beint í slíkt samansafn frétta. Í hægri dálki er aftur á mótm hægt að komast í aðra vefi Morgunblaðsins og einnig eru þar fréttir sem falla utan við hefðbundna fréttaflokkun, eða eru jafnvel broslegar eða á léttu nótunum. Lögð er áhersla á að hafa vefinn sem einfaldastan og léttastan fyrir þá sem hafa miðlungs Nettengingu eða þaðan af lakari, en einnig er reynt að haga honum svo að flestir netskoðarar geti lesið hann vandræðalaust.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert