Franklín Steiner fékk reynslulausn í skiptum fyrir upplýsingar

Franklín Steiner bauð lögreglu upplýsingar um fíkniefnamál gegn því að hann fengi reynslulausn eftir að hafa afplánað helming fangelsisvistar sem hann var dæmdur til árið 1989. Ræddi lögregla við Halldór Ásgrímsson þáverandi dómsmálaráðherra sem tók vel í málið.

Halldór staðfesti í samtali við Ríkissjónvarpið á fimmtudagskvöld að hann hefði árið 1989 átt samtal við Arnar Jensson þáverandi yfirmann ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar, og Sturlu Þórðarson yfirlögfræðing lögreglunnar í Reykjavík. En Sturla sagði frá samtölum þeirra við dómsmálaráðherra í DV á fimmutudag. Halldór sagði að lögreglumennirnir hefðu lagt mikla áherslu á að Franklín fengi reynslulausn. Halldór sagði þeim, að ef það stæðist lög og reglur teldi hann það koma vel til greina, ef það gæti hjálpað þeim í baráttunni við eiturlyfjasmygl og -sölu. Halldór sagðist hafa átt önnur samtöl við þessa aðila vegna þess að hann var áhugasamur um þessi mál. Síðan hefði Þorsteinn Pálsson núverandi dómsmálaráðherra haft samband við sig árið 1991 og spurt sig um hvort þetta samtal hefði átt sér stað og hann hafi staðfest það. Óli Þ. Guðbjartsson tók við embætti dómsmálaráðherra af Halldóri og í samtali við DV á föstudag segir hann að Arnar Jensson hafi lagt mjög hart að sér að veita Franklín reynslulaust. Óli segist hafa neitað þessari beiðni. Þorsteinn Pálsson tók við embætti dómsmálaráðherra árið 1991. Í viðtali við Ríkisútvarpið á fimmtudagskvöld sagði hann að Arnar og Sturla hefðu komið á sinn fund þetta ár, og greint sér frá því að þegar mál Franklíns Steiners var til meðferðar hafi þeir borið þetta erindi upp við þáverandi ráðherra og talið að þeir gætu fengið mjög mikilvægar upplýsingar gegn því að reynslulausn yrði veitt af hálfri afplánun eins og lög heimila. Þessa heimild töldu þeir sig hafa fengið og hefðu óskað eftir því að ekki yrði komið í veg fyrir að lögreglan gæti efnt sinn hluta af samkomulaginu, því sá sem hefði veitt upplýsingarnar væri búinn að skila sínu. Þorsteinn sagðist í kjölfarið hafa ákveðið að vísa málinu með þessum nýju upplýsingum aftur til fullnustumatsnefndar, en það hafi aldrei komið til þess að hann eða ráðuneytið tækju afstöðu til málsins. Þorsteinn gagnrýndi harðlega að Sturla Þórðarson hefði skýrt frá málinu opinberlega og sagði í útvarpsviðtalinu á fimmtudag að fíkniefnadeild Lögreglunnar í Reykjavík hafi orðið fyrir áfalli vegna frásagnar Sturlu. Hefur ráðherra hefur óskað eftir viðbrögðum lögreglustjóra. Þorsteinn sagðist hafa tekið á sig pólitíska erfiðleika í þessari umræðu á undanförnum vikum vegna þess að hann hafi talið sér skylt að varðveita þennan trúnað við lögreglumennina til að brjóta ekki niður löggæsluna í landinu og baráttu hennar gegn fíkniefnunum. Nú þegar að einn af fulltrúum lögreglunnar hefði greint frá málinu sagðist Þorsteinn auðvitað verða að segja nákvæmlega frá því hvernig málið væri vaxið en óttaðist að þetta geti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir lögregluna og það geti orðið erfitt verk fyrir hana að byggja upp trúnað á nýjan leik og ná fullum styrk í baráttu við glæpamennina aftur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert