Reykjavíkurborg og Eignarhaldsfélag Kringlunnar í samstarf

Nýbygging Kringlunnar verður þrjár hæðir, eða um 9.500 fm. Með …
Nýbygging Kringlunnar verður þrjár hæðir, eða um 9.500 fm. Með tilkomu hennar bætast við um 7 þúsund fm af verslunar- og veitingarými. Morgunblaðið

Borgarráð staðfesti í dag viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Eignarhaldsfélags Kringlunnar um samkomulag og samstarf um framkvæmdir við tengibyggingu milli Borgarleikhúss og Kringlunnar, nýtt torg og bílastæði og nýjan sal fyrir Borgarleikhúsið.

Þá samþykkti borgarráð í dag breytingu á deiliskipulagi Kringlunnar, en skipulags- og umferðarnefnd samþykkti tillögu um þetta í gær. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki haustið 1999, eða á sama tíma og 9.500 fm stækkun Kringlunnar á að ljúka.Viljayfirlýsingin felur í sér að byggð verði millibygging milli Kringlunnar 8-12 og Kringlunnar 4-6, sem áður var Borgarkringlan. Þar er gert ráð fyrir útibúi Borgarbókasafns í þeirri byggingu sem tengir saman Borgarleikhús og Kringluna, og mun safnið standa við hið nýja torg. Jafnframt verður mögulegt að innrétta síðar nýjan 450 fm sal við Borgarleikhúsið sem rúmar um 250 manns. Ekki hefur verið ákveðið í hvað salurinn verði nýttur að sögn Sigurðar Gísla Pálmasonar stjórnarformanns Haupkaups. Torgi við Kringluna verður breytt og það endurbyggt. Bílastæði á horni Listabrautar og Kringlunnar eystri verða nú á tveimur pöllum, sá lægri verður niðurgrafinn en umhverfi þar verður fegrað með gróðri. Bílastæðið mun rúma 400 bíla. Aðkoma að bílastæðum verður annars vegar af Listabraut og hins vegar af Kringlunni eystri. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að Eignarhaldsfélagið Kringlan muni annast allar framkvæmdir og fjármagna þær til ýmist 5 til 15 ára og tekur auk þess það rými sem ætlað er fyrir leikhússal á leigu fyrst um sinn. Reykjavíkurborg greiðir auk kostnaðar við bókasafn, hlutdeild í endurgerð bílastæða og fegrun á torgi og nánasta umhverfi. Í tengslum við breytinguna verða aðstæður gangandi bættar bæði að og frá Verslunarskóla Íslands og fyrir Kringluna eystri. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri Reykjavíkur sagði á blaðamannafundi, þar sem viðbyggingin og stækkunin var kynnt, að heildarkostnaður borgarinnar við verkefnið yrði um 140 milljónir króna á næstu fimm árum. Kostnaður við útibú Borgarbókasafns yrði 40-50 milljónir króna á næstu 15 árum. Eins og fyrr segir er um viljayfirlýsingu að ræða en búist er við að tillaga, sem báðir aðilar muni fallast á, verði tilbúin til undirritunar 20. apríl. Ný útilífs- og sportvöruverslun
Samhliða framkvæmdum við tengibyggingu verður unnið við stækkun Kringlunnar um 9.500 fm. Með tilkomu nýbyggingarinnar bætast við 7 þúsund fm af verslunar- og veitingarými. Þetta rými er nú um 25 þúsund fm. Helstu nýmæli í nýbyggingunni verður 2 þúsund fm útilífs- og sportvöruverslun. Einnig verða þar þrjár stórar verslunareiningar, en erlendar verslunarkeðjur hafa sýnt áhuga á að fá rými í Kringlunni í samstarfi við innlenda aðila að sögn Sigurðar Gísla. Í viðbyggingunni er gert ráð fyrir tveimur nýjum fjölskylduveitingastöðum og skyndibitastöðum verður fjölgað. Sigurður Gísli sagði að markmið með framkvæmdum væri að styrkja Kringluna í sessi í kjölfar komandi samkeppni í Smárahvammslandi í Kópavogi. Hann sagði markaðskannanir sýna fram á að eftirspurn væri eftir stærra verslunarhúsnæði í borginni og benti á að margir hefðu sýnt áhuga á að leigja verslunarrými í nýju viðbyggingunni. Einar I. Haldórsson framkvæmdastjóri verkefnis um stækkkun Kringlunnar sagði að hafist yrði handa við framkvæmdir við vesturhluta Kringlunnar í maí og þeim yrði lokið í haust. Framkvæmdir við austurhlutann hæfust í byrjun næsta árs og væri gert er ráð fyrir að sá hluti yrði tilbúinn í lok árs 1999. Einar sagði að áætlaður kostnaður Eignarhaldsfélags Kringlunnar um stækkun og viðbyggingu næmi vel á annan milljarð króna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert