Orsök matareitrunar fundin

Karl Kristinsson, sýklafræðingur á Landspítalanum, segir bakteríuna sem nýlega orsakaði hópmatareitrun á höfuðborgarsvæðinu að öllum líkindum fundna. Karl segir bakteríuna, enterotoxigenic E.coli sem er ein helsta orsök ferðamannaniðurgangs, hafa fundist í þremur af fjórum saursýnum sem send voru til rannsóknar í Danmörku.

Bakterían, sem á íslensku nefnist þarmeitursmyndandi E.coli, gefur frá sér eiturefni og koma einkenni eitrunarinnar mjög vel heim við þau einkenni sem komu upp. Hópsýking af völdum þessarar bakteríu hefur hins vegar aldrei greinst á Íslandi áður og þar sem óvenjulegt þykir að hún komi upp á Vesturlöndum hefur til þessa ekki verið leitað sérstaklega að henni við hópsýkingar hér á landi. Margir Íslendingar hafa hins vegar smitast af henni á ferðalögum til heitari landa.Karl segir að mikið þurfi að vera af bakteríunni í matvælunum til að valda sýkingu og eins og aðrar þarmasýkingar komi hún helst upp þar sem hreinlæti er ábótavant. Um 150 manns í fimm fermingarveislum á skírdag fengu matareitrun og stöðvaði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur starfsemi veitingahússins Árbergs við Ármúla vegna gruns um að ástæðu sýkingarinnar mætti rekja til veislufanga sem keyptar voru þaðan. Beindist grunurinn helst að brúnni sósu eða roast beef.
mbl.is