Guðrún Katrín Þorbergsdóttir látin

Guðrún Katrín Þorbergsdóttir.
Guðrún Katrín Þorbergsdóttir.

Guðrún Katrín Þorbergsdóttir forsetafrú er látin. Hún lést seint í gærkvöldi á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum eftir erfiða læknismeðferð.

Davíð Oddsson forsætisráðherra flutti þessar fréttir í í útvarps- og sjónvarpsávarpi í morgun og vottaði hann Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands og fjölskyldu þeirra hjóna djúpa samúð íslensku þjóðarinnar. Ávarp forsætisráðherra var eftirfarandi:
Góðir Íslendingar,
Borist hefur sú harmafregn, að Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, forsetafrú, sé látin. Hún andaðist seint í gærkvöldi, 12. október. Forsetafrúin gekkst undir erfiða læknismeðferð í Bandaríkjunum, en þangað hélt hún hinn 23. júní síðastliðinn er illkynja sjúkdómur, sem hún hafði barist við, tók sig upp á ný. Forsetahjónunum var ljóst að sú lækningatilraun yrði henni afar erfið og brugðið gæti til beggja vona. Frú Guðrún Katrín sýndi ótrúlegt æðruleysi og óvenjulegan viljastyrk í veikindum sínum og þegar leið á meðferðina vöknuðu vonir um að allt kynni að fara vel. Því er þessi fregn enn meira reiðarslag. Þau tvö ár sem Guðrún Katrín Þorbergsdóttir stóð við hlið manns síns, sem forsetafrú, voru viðburðarík. Hún ávann sér velvild og virðingu þjóðarinnar, ekki síst vegna fágaðrar framkomu og einlægs áhuga á velferð lands og þjóðar. Þjóðin mun því syrgja mjög hina látnu forsetafrú. Þyngstur er þó harmur forsetans, dætra þeirra og dætra hennar af fyrra hjónabandi. Ég votta forsetanum og fjölskyldu þeirra hjóna djúpa samúð íslensku þjóðarinnar. Guð styrki þau öll í sorg þeirra.

Ævi og störf Guðrúnar Katrínar


Guðrún Katrín Þorbergsdóttir fæddist í Reykjavík 14. ágúst 1934, dóttir hjónanna Guðrúnar Símonardóttur Bech húsmóður og Þorbergs Friðrikssonar skipstjóra. Hún var önnur í röðinni af fjórum systkinum, sem eru Auður, héraðsdómari í Reykjavík, Þór búfræðingur og Þorbergur verkfræðingur. Guðrún Katrín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955. Að námi loknu starfaði Guðrún sem fulltrúi á Náttúrufræðistofnun Íslands frá 1955 til 1963. Á árunum 1965-1973 dvaldi Guðrún í Danmörku og Svíþjóð. Hún las fornleifafræði við Gautaborgarháskóla skólaárið 1971-1972. Guðrún las þjóðfélagsfræði við Háskóla Íslands frá 1973 til 1975. Guðrún Katrín var framkvæmdastjóri Póstmannafélags Íslands frá 1979 til 1994, með þriggja ára hléi árin 1988-1991. Þann tíma rak hún verslunina Garn gallerí við Skólavörðustíg í Reykjavík. Guðrún Katrín lét félags- og sveitarstjórnarmál sig varða og var bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi á árunum 1978-1994. Þá sat hún í stjórn Minja og sögu, vinafélags Þjóðminjasafns Íslands. Guðrún Katrín vann einnig talsvert við prjónahönnun og uppskriftir eftir hana birtust í blöðum og tímaritum. Guðrún Katrín eignaðist tvær dætur með fyrri eiginmanni sínum Þórarni B. Ólafssyni yfirlækni, sem lést fyrr á þessu ári. Þær eru Erla, myndlistarkona fædd 1955, og Þóra, kennari við Sólvallaskóla á Selfossi, fædd 1960. Með síðari eiginmanni sínum, Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands, eignaðist Guðrún Katrín tvíburadæturnar Guðrúnu Tinnu og Svanhildi Döllu, sem fæddust 30. ágúst 1975.
mbl.is