"Hlýtt er þel alþjóðar sem umvefur ykkur"

Karl Sigurbjörnsson biskup mælir blessunarorð við kistu Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur. …
Karl Sigurbjörnsson biskup mælir blessunarorð við kistu Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og dæturnar Dalla og Tinna standa hjá. Morgunblaðið/Golli

Kista Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar kom til landsins frá Seattle í Bandaríkjunum laust eftir hádegi í dag. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og dætur hans, Guðrún Tinna og Svanhildur Dalla, fylgdu kistunni heim. Frá Keflavíkurflugvelli, þar sem móttökuathöfn fór fram, var kistan flutt í Bessastaðakirkju.

Guðrún Katrín Þorbergsdóttir lést 12. október sl. á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum eftir erfið veikindi. Hún fór til Bandaríkjanna 23. júní sl. þar sem hún gekkst undir læknismeðferð, en hún náði ekki þeim bata sem vonast var eftir.Flugfélagið Cargolux flutti kistu forsetafrúarinnar heim frá Seattle. Flogið var frá Seattle með viðkomu í San Fransisco. Flugferðin tók samtals á tólfta klukkutíma.  Flugvél flugfélagsins lenti á Keflavíkurflugvelli kl. 13.12. Stuttu eftir að hún lenti byrjaði að snjóa. Á flugvellinum biðu handhafar forsetavalds, Davíð Oddsson forsætisráðherra, Ólafur G. Einarsson, forseti Alþingis, og Pétur Hafstein, forseti Hæstaréttar, og makar þeirra. Þar var einnig ríkisstjórn landsins, makar ráðherranna, Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, embættismenn, starfslið forsetans og nánustu ættingjar Guðrúnar Katrínar, þeirra á meðal eldri dætur Guðrúnar Katrínar, Erla og Þóra Þórarinsdætur, systkini hennar og barnabörn.

Sorgarlög eftir íslensk tónskáld

 Átta lögreglumenn stóðu heiðursvörð þegar Ólafur Ragnar Grímsson gekk frá borði ásamt dætrum sínum. Þau heilsuðu handhöfum forsetavalds og öðrum sem viðstaddir voru athöfnina. Að því búnu gekk forsetinn til biskups Íslands og viðstaddir minntust hinnar látnu með hálfrar mínútu þögn.  Átta lögreglumenn báru kistu Guðrúnar Þorbergsdóttur frá borði. Á meðan lék Lúðrasveit verkalýðsins sorgarlög eftir íslensk tónskáld. Þeirra á meðal var Sorgarmars eftir Helga Helgason, en hann var einnig leikinn er kista Jóns Sigurðssonar kom til landsins. Marsinn var fluttur í útsetningu Ellerts Karlssonar. Lúðrasveitin flutti Heyr himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Víst ertu Jesú kóngur klár, íslenskt þjóðlag/Páll Ísólfsson, en bæði lögin voru útsett af þessu tilefni af stjórnanda sveitarinnar, Tryggva Baldvinssyni.

„Sál hennar fagnar nú"

 Þegar kistan hafði verið borin frá borði gekk Karl Sigurbjörnsson biskup að höfðagafli kistunnar og mælti nokkur blessunarorð. „Haustsvalinn umlykur ykkur, kæra fjölskylda, en hlýtt er þel alþjóðar sem umvefur ykkur, almenn samúð, dýpsta virðing, kærleikur, fyrirbæn. Velkomin heim," sagði biskup meðal annars og flutti síðan bæn. „Guðrún Katrín er nú komin heim. Líkami hennar hvílir hér. Lát okkur með sálarsjónum sjá að sál hennar fagnar nú á blíðri strönd föðurlands vors sem er á himni," sagði biskup meðal annars í bænarorðum sínum.  Að orðum biskups loknum var þjóðsöngurinn fluttur. Lögreglumenn báru síðan kistu Guðrúnar Katrínar í líkbílinn. Frá flugvellinum var ekið að Bessastöðum. Útför Guðrúnar Katrínar verður gerð frá Hallgrímskirkju næstkomandi miðvikudag. Forsætisráðherra hefur ákveðið að fánar skuli dregnir í hálfa stöng við opinberar stofnanir á útfarardaginn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert