Minningarræða biskups Íslands við útför Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur

Herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands jarðsöng.
Herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands jarðsöng. Morgunblaðið/Kristinn

Hér fer á eftir minningarræða biskups Íslands, herra Karls Sigurbjörnssonar við útför Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar í gær:

Vaktu minn Jesú, vaktu í mér,
vaka láttu mig eins í þér,
sálin vakir þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.
Skáldið Snorri Hjartarson yrkir um haustið:
Strjál eru laufin í loftsölum trjánna,
blika, hrapa í haustkaldri ró,
virðist þó skammt síðan við mér skein
græn angan að opnu brumi.  Dagar mannsins eru sem grasið, grasið sem visnar, blómin sem fölna, laufið, sem fellur á foldu, og aftur verður mold. Eins eru dagar mannsins, þeim er stefnt frá móðurskauti til moldar. Hvaða huggun er í því fólgin að minnast þess? Er ekki allt tal um fegurð haustsins, um lauf, sem falla, um haustkalda ró svo grátlega meiningarlaust þegar ástvinur á í hlut?En orð Drottins stendur stöðugt eilíflega og þessi stund og staður boðar það orð og játar þá trú og fagnar þeirri von sem á því orði byggir, það er Kristur, frelsarinn krossfesti og upprisni. „Ég lifi í Jesú nafni, í Jesú nafni ég dey". Þannig hafa Íslendingar sungið kynslóð eftir kynslóð við næstum hverja gröf. Við munum syngja það hér á eftir. Þannig hefur okkar þjóð játast lífinu, augliti til auglitis við afl dauðans. Við heyrðum áðan orð Jesú frá kveðjustund andspænis hryllingi þjáningar og dauða. Hlustum eftir því hvað þar er sagt. Afl dauðans er svo ægilegur og yfirþyrmandi leyndardómur, sjálfur Drottinn er vanmegna, lýtur í lægra haldi fyrir honum, það segir krossinn. En leiðir jafnframt í ljós í árdagsbirtu upprisunnar: Drottinn sigrar alla neyð, hann er sterkari en dauðinn og hann yfirgefur þig aldrei.Þú sem líður, þú sem syrgir, Drottinn er hjá þér í neyðinni, hann finnur til með þér, hann líður með þér, hann umvefur þig elsku sinni. Með honum er líkn í hverri raun og tári manns. Undir dýpstu djúpum neyðarinnar, ber höndin hans hlý og mild og englarnir hans góðu. Og Guð snýr böli til blessunar, reisir líf af dauða. Eins og danska skáldið Kaj Munk segir: Slíkur er máttur hins alvalda að hann getur tekið bölið í greip sína og kreist það svo að úr því drjúpi blessun.Og þetta hafa þau fundið forfeður okkar og mæður, kynslóð eftir kynslóð í samfylgd trúar og bænar með Kristi. Og þess vegna gátu þau sagt og sungið með kökkinn í hálsinum og tárvot augun:
„Dauði, ég óttast eigi,
afl þitt né valdið gilt
í Kristí krafti ég segi:
Kom þú sæll þá þú vilt.Með Kristi er þjáningin ekki afl upplausnarinnar heldur fæðingarhríðir, fæðingarhríðir upprisunnar. Og í birtu hennar er sérhvert tár þerrað af hvörmum, mildri mund kærleikans. Og þar, í þeirri birtu fáum við að sjá aftur þau, sem við unnum og dauðinnn tók, og þá munu hjörtu okkar fagna og enginn tekur fögnuðinn frá okkur að eilífu.Guðrún Katrín Þorbergsdóttir þekkti ung sorg og söknuð, hún var barn að aldri er hún missti föður sinn, Þorberg Friðriksson. Hann var einn hinna fjölmörgu Íslendinga sem hlutu hina votu gröf. En hún minntist þess og dáði af hvílíkri reisn og kjarki móðir hennar, Guðrún Beck, tókst á við sorgina og bjó börnin sín út í lífið. Og það var henni dýrmæt fyrirmynd og styrkur. Og á baksviði missis og sorgar voru bernskuminningar hennar bjartar og hlýjar og gleðiríkar. Guð blessi minningu foreldranna og þau öll, sem hún Guðrún Katrín unni, og voru henni gleði og gæfa í lífi.Guðrún Katrín lét til sín taka á sviði þjóðmálanna. Hún sat í bæjarstjórn um árabil, hún stýrði fjölmennum launþegasamtökum, hún bar umhverfismál fyrir brjósti og hag og kjör almennings. Þjóðminjar og saga voru henni hjartfólgin og ást hennar á landinu, sögu þess og lífi þjóðar henni hjartagróin. Og ævina alla voru aðstæður sjómanna henni hugstæðar.Samfylgd þeirra Ólafs Ragnars Grímssonar einkenndist af gagnkvæmri virðingu, hlýju og ást. Og dætrum sínum Erlu og Þóru, og Döllu og Tinnu, tengdasyni og niðjum var hún umhyggjusöm móðir, tengdamóðir og amma. Þau voru gæfa hennar og gleði mest og dýrmætast þakkarefni. Hugir okkar eru hjá ykkur, umfram allt, ykkur sem mest hafið misst. Við biðjum Guð að blessa ykkur, hugga og styrkja.Guðrún Katrín var virt og dáð af alþjóð. Framkoma hennar, viðmót, glæsileiki, gáfur og listfengi og lifandi áhugi hennar á fólki, högum þess og kjörum, það hreif almenning í þessu landi. Hún vakti athygli hvarvetna innanlands sem utan fyrir fágun og persónutöfra. Hún var afar fjölþættum gáfum gædd og áhugasvið hennar vítt eins og hér hefur komið fram. Listelsk var hún og listfeng, frjór og skapandi listamaður, Hún hafði mikinn áhuga á að styrkja listsköpun ungs fólks eins og öllu því sem verður til að efla og styrkja hina ungu gegn því sem eyðir og brýtur niður. Barátta hennar gegn vímuefnum vakti þjóðarathygli og það hve vel hún sinnti hinum ýmsu samtökum í þágu sjúkra. Guð blessi þau málefni öll sem henni voru hugstæð og hjartfólgin.Fyrir um ári var hún slegin skelfilegum sjúkdómi. Það var okkur öllum reiðarslag sú fregn. Ísland allt hafði eina sál og einn huga í samstöðuni með henni og fjölskyldu hennar í fyrirbænum og bataóskum. Og eins og við höfðum til þessa dáðst að henni fyrir göfgi og glæsimennsku í virðingarstöðu hrifumst við af henni í því hlutskipti sem hún tókst nú á við. Guðrún Katrín var kvödd í hóp hins hljóða hetjuhers, sem gengur um á meðal okkar með lotningu, eins og það beri boð frá konungi. En leyndardómurinn sem það ber hefur heiti sem vekur okkur hinum ógn og ótta og við svo vanmegna og óttaslegin gagnvart þessum ægilega leydardómi, við sem einatt viljum forðast þjáninguna og sársaukann og finnst sem það séu hið æðstu gæði að flýja það, fela og gleyma, við hljótum að undrast og hrífast af þeim sem þroska og vexti hins innra manns sem við verðum vitni að meðal hinna þjáðu: Æðruleysi, trúarstyrk og von andspænis ofurefli.Hvað vitum við um glímuna, um átökin hið innra milli ótta og vonar? Hvað vitum við um kvöl endurtekinna rannsókna, læknismeðferða? Hvað vitum við um biðina löngu eftir niðurstöðu og feginleikann við góðu fréttunum, vonbrigðin og angistina þegar þær slæmu berast? Við vitum minnst af því. En lífsþrótturinn sem við verðum vitni að, æðruleysið og kjarkurinn og umhyggjan verður okkur undur og kraftaverk og þannig kom Guðrún Katrín okkur fyrir sjónir. Sú stilling og reisn sem hún sýndi í stríðinu stranga lét engan ósnortinn. Né heldur samstaðan, sem eiginmaður hennar sýndi henni, og fjölskyldan sem umvafði hana til hinstu stundar. Þetta allt var þeim, sem svipaða harmabraut feta, og okkur öllum ómetanleg fyrirmynd, styrkur og uppörvun. Guð launi það og blessi. Einlæg var virðing og tiltrú og þakklæti Guðrúnar Katrínar og fjölskyldu hennar í garð lækna og hjúkrunarliðs sem annaðist hana bæði hér heima og vestan hafs. Hér skal í hennar nafni og fjölskyldunnar þakka þeim öllum sem lögðu fram hug og hönd til líknar og hjálpar.Svo lagðist hauströkkrið yfir og hretið harða, hinsta. Voru bænirnar allar til einskis? Trúin og vonin fánýt? Nei, segir trúin og vonin og kærleikurinn taka undir í dýpstu sálar innum, og hlustaðu eftir því. Engill Drottins kom. Stundin var komin. Fæðingarhríðar á enda, lausnin fengin. Engill Drottins kom og tók sál hennar á arma sína og bar inní ljósið bjarta upprisudagsins og lífsins eilífa hjá Kristi. „Ég mun sjá yður aftur," segir Kristur um þá stund, „ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður að eilífu." Í þeirri trú og von kveðjum við. Í ljóma hennar er þökkin tjáð og hvílan hinsta signd og myndir minninganna. Og héðan haldið veginn fram í bjartri von endurfunda í frelsarans Jesú nafni. Honum sé dýrð og þökk að eilífu. Amen.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert