Útför Guðrúnar Katrínar hafin í Hallgrímskirkju

Frá upphafi útfarar Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur í Hallgrímskirkju.
Frá upphafi útfarar Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur í Hallgrímskirkju. Morgunblaðið/Kristinn

Útför Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar hófst klukkan 11 í Hallgrímskirkju, en hr. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands jarðsyngur. Viðstaddir auk fjölda annarra gesta, eru þjóðhöfðingjar allra Norðurlandanna.

Kista Guðrúnar Katrínar var flutt úr Bessastaðakirkju í morgun. Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands munu bera kistuna úr kirkju. Skátar úr Bandalagi íslenskra skáta munu mynda fánaborg frá Hallgrímstorgi að Eiríksgötu er kistan er borin úr kirkju. Líkfylgdin mun aka í lögreglufylgd að Fossvogskapellu. Biskup Íslands verður þar með stutta athöfn fyrir forsetann, fjölskyldu hans og nánustu ættingja. Þjóðhöfðingjum Norðurlandanna verður ekið til Bessastaða að útförinni lokinni þar sem þeim verður boðið til hádegisverðar. Ríkisstjórn, biskup og æðstu embættismenn landsins verða þar ásamt forseta Íslands. Sendiherrum erlendra ríkja verður boðið til móttöku í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Kórarnir Vox Feminae og Schola cantorum syngja við útförina undir stjórn Margrétar J. Pálmadóttur og Harðar Áskelssonar. Sigrún Hjálmtýsdóttir og Kristinn Sigmundsson syngja einsöng. Organisti er Hörður Áskelsson. Tónlistin sem flutt verður við athöfnina er "Heyr, himna smiður" eftir Kolbein Tumason við lag Þorkels Sigurbjörnssonar, "Maístjarnan" eftir Halldór Kiljan Laxness við lag Jóns Ásgeirssonar, "Þó þú langförull legðir" eftir Stephan G. Stephansson við lag Sigvalda Kaldalóns, "Víst ertu, Jesú, kóngur klár" eftir Hallgrím Pétursson við lag Páls Ísólfssonar, "Sjá, dagar koma, ár og aldir líða" eftir Davíð Stefánsson við lag Sigurðar Þórðarsonar, "Vertu, Guð faðir, faðir minn" eftir Hallgrím Pétursson við lag Jakobs Tryggvasonar, "Allt eins og blómstrið eina" eftir Hallgrím Pétursson við þýskt lag og að lokum verður þjóðsöngurinn sunginn. Fyrir athöfnina verður fluttur orgelforleikur eftir Jón Nordal og eftirspil er úr orgelverki eftir Jónas Tómasson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert