Davíð vinsælasti og óvinsælasti stjórnmálamaðurinn samkvæmt skoðanakönnun

Davíð Oddsson forsætisráðherra er vinsælasti stjórnmálamaður landsins samkvæmt nýrri skoðanakönnun DV og jafnframt sá óvinsælasti. Næstvinsælastur í könnuninni var Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, og í þriðja sæti Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingar - Græns framboðs.

Um 45,5% þeirra sem afstöðu tóku voru hrifnastir af Davíð Oddssyni, en fjórðungur svarenda mat hann minnst allra stjórnmálamanna. Næstóvinsælastur var Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og í þriðja sæti lenti Siv Friðleifsdóttir, nýskipaður umhverfisráðherra.
mbl.is