Báðust afsökunar fyrir hönd lögreglunnar

TVEIR fulltrúar þýsku lögreglunnar í Recklinghausen gengu á fund Ingimundar Sigfússonar, sendiherra Íslands í Þýskalandi, en hann hefur aðsetur í Berlín, og báru fram afsökunarbeiðni vegna framgöngu lögreglunnar við handtöku pólskra glæpamanna í sjónvarpsturninum í Düsseldorf, en hópur Íslendinga lenti í áhlaupi lögreglunnar. Enginn Íslendinganna slasaðist alvarlega í áhlaupinu, en tveir voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Ingimundur sagði að lögreglumennirnir hefðu komið á hans fund til að gera grein fyrir aðgerðunum og útskýra þær. Fram hefði komið að þeim þætti mjög fyrir að Íslendingarnir hefðu orðið fyrir þessu, en þeir hefðu verið að glíma við glæpamann, sem væri eftirlýstur á alþjóðavettvangi, og talinn mjög hættulegur.

 Ingimundur sagðist telja að það væri fátítt að lögregla bæðist afsökunar með þessum hætti. Fram hefði komið að þýska lögreglan tæki þennan atburð mjög alvarlega. Hún hefði gengið hart fram, en ekki talið að um annan kost væri að ræða til að koma í veg fyrir að þróun atburða yrði með verri hætti en þó varð raunin, eins og til dæmis hvað varðaði hættuna á hugsanlegri gíslatöku.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert