Einn föstudagur í viku

Í dag, 28. nóvember, hefst aðventan eða jólafastan. Hún spannar fjórar síðustu vikurnar fyrir jól, fæðingarhátíð Krists. Og skrifandi um föstuhald verður að staldra við lönguföstu, föstutímann milli öskudags og pálmasunnudags. Loks ber að nefna okkar vikulega föstudag, sem er "leif af eldfornri, vikulegri hollustuföstu", segir í bók Árna Björnssonar, Hræranlegar hátíðir.

Elzta föstuhald er rakið til hollustuhátta. Það þótti hyggilegt af heilsufarsástæðum að setja sér reglur um mataræði, eins og fólk gerir raunar enn í dag, hver með sínum hætti. Hagræn sjónarmið landsfeðra réðu og stundum ferð. Gæta þurfti þess að vissar matartegundir gengju ekki of skjótt til þurrðar. Fleira kom til. Hebrear bönnuðu allt kjötát í 40 daga fyrir páska, síðustu vikurnar fyrir sauðburð, en í fyrndinni vóru páskar uppskeruhátíð hirðingja. Þeir urðu síðar minningarhátíð Gyðinga um flóttann frá Egyptalandi. Með kristnum þjóðum eru þeir höfuðhátíð til minningar um upprisu Jesú Krists. Föstur vóru og viðhafðar í kristnum sið. Páskafasta kristinna manna, þ.e. 40 daga fasta, var komin í fastar skorður á 3. eða 4. öld e.kr. Hún sótti fyrirmynd til frásagna um 40 daga föstu Jesú í eyðimörkinni og jafnlangrar föstu Móses enn lengra aftur í tíma á Sínaifjalli. Fastan var misströng eftir þjóðum og tímaskeiðum. Föstubannið náði þó alltaf til kjöts. Helztu ákvæði um langaföstu og föstuhald almennt hér á landi er að finna í Kristinna laga þætti, sem lögtekinn var 1120 til 1130 og síðar Kristnirétti Árna biskups Þorlákssonar frá 1275, sem gilti um land allt fram yfir miðja 14. öld. "Hefðbundið bann við neyzlu kjötmetis á langaföstu virðist hafa verið í gildi sem óskráð lög lengi eftir siðbreytingu," segir í bókinni Hræranlegum hátíðum. Meginþorri Íslendinga hefur löngu lagt af föstuhald. Það kemur þó mjög við sögu okkar, afkomu og efnahag, fyrr á tíð - og um okkar daga. Föstuhald rómversk-kaþólskra þjóða, einkum við Miðjarðarhafið, hefur "markaðssett" íslenzkan saltfisk með miklum ágætum, ef svo má orðum haga. Saltfiskur (bacalao) héðan þykir bera af annarri sambærilegri vöru þar um slóðir. Það heyrir og til sögu okkar að snemma á þriðja áratug aldarinnar neituðu Spánverjar, langstærstu saltfiskkaupendur okkar, að endurnýja viðskiptasamning við okkur, nema leyfður yrði innflutningur á borðvínum hingað. Flestra mat er að sá gjörningur hafi öðrum fremur brotið á bak aftur áfengisbann, sem hér ríkti á árunum 1915 til 1935. Föstuhald, hvort heldar af hagrænum, heilsufarslegum eða trúarlegum ástæðum, er verðugt íhugunarefni. Það kallaði á staðfestu og ögun, bæði þjóða og einstaklinga, sem meira mætti vera af í dag en raun ber vitni um. Föstuhald getur að vísu farið út í öfgar, eins og svo margt annað, en það þjónar áreiðanlega jákvæðum tilgangi þegar hagsýni og hyggindi ráða ferð. Ofát og offita er stórt heilsufarslegt vandamál hjá flestum velmegunarþjóðum um okkar daga. Lyf og leiðir til megrunar virðast vera góð söluvara og gróðavegur í velferðarríkjum, ekkert síður en "bacalao" á Pýreníuskaga. Það er sjálfsagt ekki við hæfi að flokka megrunarmeðferðir undir nútíma föstuhald, þótt heilsufarslegt markmið sé af sama toga. En utan hagsældarlandamæra betur settra þjóða býr "hungraður heimur". Þar deyr fólk unnvörpum úr næringarskorti á öld menntunar, fjölmiðlunar og tækni. Það er raunar ekki ýkja langur tími síðan að hungurveruleikinn var og íslenzkur veruleiki. Af þessum sökum er ekki úr vegi að hagsældarfólk fasti hálfan föstudag - jafnvel heilan - fjórar Jólaföstuvikur - og láti andvirði einnar máltíðar - jafnvel tveggja - ganga til "hins hungraða heims" fyrir milligöngu Hjálparstofnunar kirkjunnar. Það væri í anda hans sem aðventan og jólin eru helguð; hans, sem sagði, að hver greiði þeim gerður sem hjálpar þarfnast - væri sér gerður. Einn föstudagur í hverri jólaföstuviku. Það væri hóflegur en góður ásetningur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert