Norskt samstarfsráð um náttúruvernd ályktar gegn Fljótsdalsvirkjun

Samstarfsráð um náttúruvernd, í Noregi, SRN, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fyrirtækið Norsk Hydro er hvatt til að leggja á hilluna áform um að byggja álver við Reyðarfjörð þar til staðfest sé að að orkan sem notuð verður til að knýja verksmiðjuna fáist með þeim hætti sem ekki eyðileggi íslenska náttúru.

Segir í yfirlýsingunni að það sé að minnsta kosti krafa samstarfsráðsins að Norsk Hydro taki ekki þátt í slíku verkefni nema að undangengnu ítarlegu umhverfismati á Fljótsdalsvirkjun, þar á meðal á stíflugerð við Eyjabakka, í samræmi við íslensk lög. Aðild að SRN eiga Det Norske Turistförening, Norges Naturvernforbund, Norges Jeger- og Fiskerforbund og Náttúruverndarsjóðurinn, WWF, í Noregi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert