Sex nýjar bíómyndir styrktar árið 2001

Kvikmyndin 101 Reykjavík er meðal þeirra mynda sem fá viðbótarframlag …
Kvikmyndin 101 Reykjavík er meðal þeirra mynda sem fá viðbótarframlag frá Kvikmyndasjóði. Á myndinni glugga Baltasar Kormákur leikstjóri og leikkona Victoria Abril í handritið. Morgunblaðið/Kristinn

Kvikmyndasjóður Íslands hefur gefið vilyrði til framleiðslu sex nýrra bíómynda árið 2001 og verða alls 137,8 milljónir veittar til myndanna það ár. Þá eru 12,2 milljónir veittar til heimilda- og stuttmynda árið 2001 og er framlag sjóðsins því alls 150 milljónir. Alls bárust 205 umsóknir um styrki, þar af 47 til framleiðslu leikinna kvikmynda og 92 til handritsgerðar leikinna kvikmynda.

Hæsta framlagið, 40 milljónir króna, fá myndirnar Mávahlátur, sem Ágúst Guðmundsson leikstýrir og Ísfilm framleiðir, og Fálkar, sem Friðrik Þór Friðriksson leikstýrir og Íslenska kvikmyndasamsteypan framleiðir. Þá fær myndin Regína, sem María Sigurðardóttir leikstýrir og Íslenska kvikmyndasamsteypan framleiðir, 30 milljónir, Monster sem Hal Hartley leikstýrir og Íslenska kvikmyndasamsteypan framleiðir og Íslenski draumurinn sem Robert Douglas leikstýrir og Kvikmyndafélag Íslands framleiðir fá 10 milljónir hvor mynd, og Gemsar, í leikstjórn Mikaels Torfasonar og framleiðslu Zik Zak kvikmynda, fær 7,5 milljónir. Þá gefur Kvikmyndasjóður fimm heimilda- og stuttmyndum vilyrði til framleiðslu árið 2001, samtals 12,2 milljónir. Þetta eru Býrðu í bragga, höfundur Ólafur Sveinsson; Við byggjum hús eftir Þorstein Jónsson; Nao, Pam og Su eftir Ásthildi Kjartansdóttur; Viktor eftir Árna Ibsen og Vilhjálm Ragnarsson og Fyrsta hjálp en höfundar að henni eru Eirún Sigurðardóttir, Dóra Ísleifsdóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir. Úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs hefur einnig úthlutað framhaldsstyrkjum til bíómynda og heimildarmynda á þessu ári, alls 137 milljónum króna. Sólon Íslandus, sem Íslenska draumaverksmiðjan framleiðir og Margrét Rún Guðmundsdóttir leikstýrir fær 1 milljón í viðbótarframlag og 46,5 milljóna vilyrði frá síðasta ári er framlengt til 1. júní. Ikingut eftir Gísla Snæ Erlingsson, sem Íslenska kvikmyndasamsteypan framleiðir, fær 42 milljóna króna vilyrði framlengt til 1. apríl. Villiljós eftir Ásgrím Sverrisson, Dag Kára Pétursson, Einar Þór Gunnlaugsson, Ingu Lísu Middleton og Ragnar Bragason og Zik Zak kvikmyndir framleiða, fær 2,5 milljóna viðbótarvilyrði en 18 milljóna króna vilyrði er framlengt til 1. mars. 101 Reykjavík í leikstjórn Baltasars Kormáks og framleiðslu 101 ehf. fær 2,5 milljóna króna viðbótarframlag en áður var úthlutað 25,7 milljónum til myndarinnar. Þá veitir sjóðurinn tveimur myndum sérstakt áhættulán. Önnur myndin er Óskabörn þjóðarinnar, sem Jóhann Sigmarsson leikstýrir og Íslenska kvikmyndasamsteypan framleiðir, en lánið nemur 2,5 milljónum. Áður hefur myndin fengið 10,8 milljónum úthlutað. Hin myndin er Sjálfstætt fólk í leikstjórj Hectors Babenco, sem fær 1,5 milljóna króna áhættulán. Samtals nema framlög til bíómynda árið 2000 116,2 milljónum króna. Þá fá 10 manns 300 þúsund króna framlag hver til handritagerðar og -þróunar árið 2000. Þetta eru Arnaldur Indriðason og nefnist verkefnið Dauðarósir, Börkur Gunnarsson - Jólatréð, Erlendur Sveinsson - Sunna, Huldar Breiðfjörð - Skuggi Ugga, Jón Ármann Steinsson - Georg í mannheimum, Lars Emil Árnason - Jóhann risi, Karl Ágúst Úlfsson - Draumur í dós, Pálmi Gunnarsson - Fyrirboðinn, Margrét Örnólfsdóttir - Úthverfadrottningin; og Sveinn Ó. Gunnarsson - Rökkvi. Loks nema framlög til heimildarmynda og teiknimynda árið 2000 10,3 milljónum samtals. Í gegnum linsuna eftir Grétu Ólafsdóttur, Susan Muska og Æsu Sigurjóndóttur, fá 3,3 milljóna vilyrði. Tyrkjaránið á Íslandi eftir Hjálmtý Heiðdal og Þorstein Helgason fær 2,5 milljóna króna vilyrði. Þá fær teiknimyndin Litla lirfan ljóta eftir Gunnar Karlsson og Friðrik Erlingsson 4,5 milljónir króna. Úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs skipa Björn Vignir Sigurpálsson, Christof Wehmeier og Úlfhildur Dagsdóttir. Undirnefnd vegna handritsstyrkja skipa Bjarni Jónsson, Salvör Nordal og Steinunn Sigurðardóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert