Eins og snigill á hvolfi

Fyrir skömmu urðu Íslendingar frægir einn dag á Krít. Þá birtist nefnilega heilsíðugrein um nýhafið landnám þeirra á Krít í Hania-tíðindum undir fyrirsögninni: "Íslendingar uppgötva Krít." Blaðamenn og ljósmyndarar þyrptust út á flugvöll þegar fyrsta þotan frá Icelandair Holidays sveif niður á jörðina dálítið stolt með magann út í loftið. Þegar fyrstu Íslendingarnir renndu farangri sínum inn í komusalinn í flugstöðinni tóku á móti þeim sjónvarpsmyndavélar frá Kydon TV, en það er sérstök sjónvarpsrás í Hania-héraði. Seinna um kvöldið birtist þriggja mínútna sjónvarpsfrétt um komu þeirra og höfðu klipparar sjónvarpsins fengið sérstakt dálæti á fjölskyldu einni, sem birtist aftur og aftur í mynd. Á stétt fyrir utan flugstöðina svignuðu borð undan veitingum, víni og kökum, konum voru færðar gular rósir og börnin fengu djús. Krítverskir tónlistarmenn struku lýru og lútu, hófu upp raust sína og sungu á meðan dansarar stigu dans í skrautlegum búningum. Allt okkur til heiðurs, allt til að gleðja okkur og gera fyrstu heimsóknina eftirminnilega. Úti var 24 stiga hiti, degi þó tekið að halla og ljósaskiptin í nánd. Á þeim tíma dags eru litbrigði himins og jarðar á þessari breiddargráðu með eindæmum töfrandi; ljósfljólublá slikja með gulrauðu ívafi liggur yfir landinu og til viðbótar fyllir vitin sterkur ilmur af vorgróðri. Í ljósaskiptunum færist einhver ró yfir mannskapinn, enda "mesimeri" eða miðdegi nýlokið og fólk rétt að rumska fyrir seinni vaktina, síðdegið og kvöldið. Strákarnir á skrifstofunni koma í vinnuna nýbaðaðir í hreinni skyrtu og glaðir á svip. Búnir að borða og leggja sig og kannski kyssa konurnar. Ekkert fát og fum, heldur einbeiting og vinnusemi. Þeir eru ekki eins og ég sem kemst aldrei heim að borða fyrir önnum. Þess vegna borða ég oftast hjá honum Taki á móti skrifstofunni hér í Kato Stalos. Meira segja komin í reikning hjá honum. Konan hans Katerina lyftir pottlokum og opnar ofna til að sýna mér rétti dagsins. Hún býr til besta músakka í heimi. Í næstu viku ætla þau hjónin að bjóða mér upp á steikta snigla. Sniglar eru daglegt brauð hjá Krítverjum þessa dagana. Þegar rignir skríða þeir upp úr jörðinni og fara á flakk. Þegar ég fór síðast út á flugvöll og ók í gegnum ólífulundina á Akrotiri-höfðanum sá ég hvar nokkrar sálir bograndi oní sverðinum í leit að sniglum. "Búbúristí koklí" heitir rétturinn á máli innfæddra, steiktir sniglar á íslensku. Svo er líka til réttur hér sem heitir sniglar á hvolfi, en ég hef ekki fengið neinn botn í hann enn. Sjálf er ég svolítið eins og snigill á hvolfi þessa dagana, snýst bæði í kringum sjálfa mig og aðra frá morgni til kvölds og drattast svo heim til mín seint á nóttinni. Enda er hún Dimitría mín alveg hissa á þessu útstáelsi mínu. Í þessi fáu skipti sem ég rekst á hana notar hún tækifærið og ryður úr sér spurningamerkjum. Það er kærkomið tækifæri bæði til að hlusta á grísku og æfa mig í að svara, því ég má tala hægt, segja vitleysu og leiðrétta um leið. "Hvar ertu eiginlega allan daginn, ég hringi á morgnana og á kvöldin og þú ert aldrei heima?" Hún talar eins og vonsvikin eiginkona, sem saknar nærveru eiginmanns, sem er yfirhlaðinn af vinnu og álagi. Ég veit svo sem ekki hvar ég væri ef hennar nyti ekki við og er loksins farin að skilja hvað góður kvenkostur er mikils virði fyrir vellíðan alls mannkyns. Til þess að lifa allt þetta álag af byrja ég yfirleitt daginn á því að kreista úr tveimur fullþroska appelsínum í glas plús einni sítrónu og steypa því í mig. Við það fæ ég svo mikið c-vítamínkikk að ég geisla öll af orku og finnst ég fær í flestan sjó. Enda hverfa appelsínubirgðirnar eins og dögg fyrir sólu. En hún Dimitría mín er svo góð að ég þarf ekki annað en senda henni hugskeyti til að fá nýjan skammt. Þessi "telepatía" mín nær bókstaflega yfir allar mínar þarfir. Ég legg blússuna mína á strauborðið að morgni og hún er strokin og fín að kvöldi. Ég set í vél og hún er búin að hengja upp úr henni þegar ég kem heim. Reyndar gengur þessi "telepatía" svo langt milli okkar Dimitríu að einn daginn hafði ég orð á því við vini mína, að það eina sem vantaði í íbúðina okkar væri dúkur á ljóta plastborðið í borðstofunni; þegar við komum heim var ósýnileg hönd Dimitríu búin að hylja það með dúk.

Samkvæmt helgihaldi grísku rétttrúnaðarkirkjunnar eru páskar viku síðar á ferðinni en hjá kaþólskum og lúterskum. Páskahátíðin er ein mesta helgi- og gleðihátíð landsmanna, sannkölluð upprisuhátíð, sem flestir taka þátt í. Föstunni er þá að ljúka og undirbúningur páskanna nær hámarki með matartilbúningi og bakstri, sambærilegum við jólaundirbúning okkar. Langa páskavikan eða "megalí evðómaða" á grísku hófst á mánudag og endar með mikilli páskahátíð í vikulok. Þá gera Grikkir sér þann grikk að eta á sig gat þó aðallega á páskadag og aðfaranótt hans. Áður fara þeir til kirkju og hlusta á sína presta tóna aftan úr fornkirkjunni "Christos anesti,ðefte lavete fos" eða Kristur er upprisinn, komið og takið á móti ljósinu! Ég er alveg harðákveðin í að sniglast þá í einhverja Krítarkirkju, þó ekki á hvolfi, og fylgjast með því þegar ljósið sem sótt er alla leið til Jerúsalem af grískum flugmönnum breiðist út meðal fólksins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert