Júdasarbrennur á páskum

Páskar á Krít eru einstök reynsla fyrir bælda og hefta lúterstrúarmenn. Þeir minna meira á gamlárskvöld og áramótagleði, en píslargöngu Krists og heilaga upprisu. Þótt allir séu ekki jafntrúaðir og fylgnir Orþódox-kirkjunni, halda allir jafnmikið upp á páskana og langflestir fara til kirkju sérstaklega á laugardeginum fyrir páska. Þá er haldin kvöldmessa í öllum kirkjum eyjarinnar og reyndar á öllu Grikklandi, sem hefst um ellefuleytið og lýkur laust eftir miðnætti. Að henni lokinni streyma allir heim til sín og éta sig pakksadda fram á nótt. Flestir borða ekki kjöt í páskavikunni og hlakka því til að rífa það í sig aðfaranótt páskadagsins ásamt öðru góðmeti. Þar með lýkur páskavikunni og daginn eftir á páskasunnudag er páskalambið snætt við mikinn fögnuð.

Krítverjar eru einstaklega gestrisnir og alveg sérstaklega yfir páskahátíðina, þá má enginn vera einn og yfirgefinn, ekkert frekar en á jólunum hjá okkur. Allir vildu bjóða heim í mat um páskana, bæði eftir laugardagsmessuna og eins í páskalambið. Tilboðin streymdu til okkar úr öllum áttum, jafnvel læknirinn hvíslaði því að mér hvort ég vildi ekki líta til hans í mat á sunnudeginum. Það varð úr að við þáðum heimboð til hennar Dimitríu okkar sem býr í 120 manna þorpi rétt utan við ströndina. Við ætluðum að hittast í þorpskirkjunni í kvöldmessunni og fara síðan heim til hennar og borða á okkur gat. Við rugluðumst samt aðeins á kirkjum í páskamyrkrinu og fórum í næsta þorp við hliðina og hittum hana ekki fyrr en messunni lauk. Hún fann á sér að við hefðum ruglast, svo hún sendi hann Stelios manninn sinn til að sækja okkur þar sem við stóðum ein á kirkjutröppunum með okkar kerti alveg að fara að gráta og allir farnir heim að borða. Á föstudaginn langa fara fram miklar serimóníur sem snúast aðallega í kringum líkbörur og grafhýsi Krists. Það heitir "epitaphios" á grísku sem þýðir grafhýsi. Snemma morguns taka konur sig til í söfnuðum landsins og skreyta táknrænar líkbörur Krists með litskrúðugum ilmandi vorblómum. Seinna um kvöldið er síðan farið í skrúðgöngu með líkbörurnar um þorp og bæi. Ég lenti inni í miðri göngunni sem fór um Haniaborg. Þá var ég búin að sniglast upp í nunnuklaustrið í Korakies og hlusta þar á ævafornan helgisöng nunnanna sem virtust engu yngri en hljóðin sem þær gáfu frá sér. Fólk streymdi inn og út úr lítilli og þröngri klausturskirkjunni, kveikti á kertum og kyssti líkbörur Krists. Fyrir utan kirkjuna sat fólk líka eða stóð undir trjám, talaði saman, reykti og kyssti hvert annað með orðunum "kallo paska" - gleðilega páska. Skrúðgangan með líkbörur Krists í Hania hlykkjaðist í gegnum gamla tyrkneska hverfið Splantzia og endaði niðri á höfn með brennum og sprengingum. Við hafnarbakkann á innri höfninni var búið að koma fyrir röð af bálköstum og gálgum, en á þeim héngu tuskubrúður sem einna helst minntu á fuglahræður. Eldar loguðu glatt í köstunum og við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hér væri verið að brenna svikarann Júdas á báli. Júdasarbrennur um páska eru siður sem eingöngu viðgengst á Krít og fer fram í öllum þorpum og bæjum. Þær eru ekki endilega öllum að skapi. Ókristilegt og frumstætt segja margir, enda má rekja siðinn aftur til heiðinna minna. Þegar ég spyr hann Lambaþakis, sérfræðing minn í krítverskum málefnum, hvers vegna þeir kveikja í Júdasi á páskum, þá verður hann alvarlegur á svip og segir með dulitlum tilfinningaþrunga í röddinni: "Nú, af því við þolum ekki svikara hér á Krít, höfum aldrei og munum aldrei." Svo útskýrir hann fyrir mér alla söguna á bakvið Júdasarbrennuna og á ekki orð yfir heigulshátt svikarans í liði Krists. Honum var jú treyst til að vera gjaldkeri hjá þeim postulum og sjá þeim fyrir mat og klæðum. En hann freistaðist til að þiggja mútur frá aðalóvininum, silfurpeningana 30, og þar með sveik hann meistarann og kenningar hans. Að lokum var hann ekki maður til þess að horfast í augu við eigin karakterbrest og fór út og hengdi sig. Lambaþakis bætir síðan við að Krítverjar hafi alltaf tekið alla svikara af lífi. Þeir líða engin svik gegn landi sínu og þjóð. Er skemmst að minnast andspyrnu Krítverja gegn hernámi Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni, svo ekki sé minnst á frelsisbaráttu þeirra gegn Tyrkjum á 19. öld. Hann minnir líka á að Krít sé þannig staðsett í Miðjarðarhafi að um hana hafi alltaf staðið styrr. Eyjan liggur mitt á milli þriggja heimsálfa, Evrópu, Afríku og Asíu, og allt frá fornöld hafa aðrar þjóðir ágirnst eyjuna. Íbúar eyjunnar hafa því alltaf þurft að vera á varðbergi gagnvart erlendum yfirráðum til að halda í séreinkenni sín, tungu og menningu. Feneyingar, sem voru stórveldi á Miðjarðarhafi um 900 ára skeið, ásældust náttúrugæði Krítar, hafnir og fleira og réðu hér ríkjum í tæp 400 ár. Á Krít eru miklar vatnsuppsprettur, frjósöm jörð og frábær skilyrði til ræktunar og matarframleiðslu. Að öllu þessu samanlögðu er það afar skiljanlegt að Krítverjar þoli ekki þá sem svíkjast undan merkjum og skipa sér í hóp með óvininum, hver sem hann er á hverjum tíma. Þótt bannað sé að eiga og bera byssur eða önnur skotvopn á Krít, eiga landsmenn þó flestir byssur. Lambaþakis er með sína undir koddanum, en Apostolis sem er annar sérfræðingur minn er með hana í hanskahólfinu í bílnum sínum. Þeir eru ávallt á verði gegn svikurum. Júdasarbrennur á páskum er áminning um það.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert