Radio og X-ið sameinaðar í eina stöð

Útvarpsstöðvarnar Radio og X-ið voru sameinaðar í morgun en nýja stöðin mun heita Radio-X. Ágúst Héðinsson, yfirmaður dagskrárdeildar útvarpssviðs hjá Íslenska útvarpsfélaginu, sagði hagræðingu ástæðuna fyrir sameiningu stöðvanna. Radio-X verður fyrst um sinn send út á tíðnum gömlu stöðvanna, FM 97,7 og FM 103,7, en í framtíðinni verður Radio-X send út á 103,7. Þorsteinn Hreggviðsson (Þossi) hefur verið ráðinn dagskrárstjóri stöðvarinnar. Gert er ráð fyrir að nýja stöðin muni halda úti því besta sem var á báðum stöðum, að sögn Ágústs.

Radio var undir merkjum Íslenska útvarpsfélagsins, en X-ið var stöð hjá Fínum miðli. Norðurljós hf., sem rekur Íslenska útvarpsfélagið, keypti alla hluti í bandaríska félaginu Saga Communications of Iceland Inc., sem átti 79% í Fínum miðli. Í framhaldi var farið í endurskipulagnginu á stöðvum Íslenska útvarpsfélagsins og Fíns miðils. Ágúst sagði að allt starfsfólk Stjörnunnar hefði til dæmis verið flutt yfir á Gull 90,9 en Stjarnan yrði ómönnuð fyrst um sinn. Jafnframt hefði Kristófer Helgason verið ráðinn dagskrárstjóri Gullsins. Þá stæði til að efla Sögu, sem flytur íslenska tónlist, og ráða fólk á stöðina. Hann sagði að litlar breytingar yrðu á FM 95,7 og að Bylgjan yrði rekin með sama sniði. Aðspurður um úrvarpsstöðina Mono sagði Ágúst að engar breytingar væru fyrirhugaðar á þeirri stöð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert