Hljómsveitin Suede spilar á Íslandi í október

Breska hljómsveitin Suede.
Breska hljómsveitin Suede. mbl.is

Breska hljómsveitin Suede spilar á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves 2000, sem haldin verður dagana 19.-21. október nk. Flugleiðir í samstarfi við Reykjavík - menningarborg Evrópu árið 2000, Ferðamálaráð, útgáfufyrirtækið EMI og Mastercard International standa í sameiningu að tónlistarhátíðinni. Fjölmargar íslenskar hljómsveitir og tónlistarmenn auk nokkurra þekktra erlendra hljómsveita koma fram á hátíðinnni.

Gert er ráð fyrir að nærri tvö þúsund erlendir tónleikagestir sæki hátíðina frá öllum markaðssvæðum Flugleiða og stefnir í að enginn annar viðburður menningarborgarinnar á Íslandi laði að fleiri erlenda gesti. Tilgangurinn með hátíðinni er annars vegar að gefa íslenskum tónlistarmönnum tækifæri á að kynna sig og tónlist sína að viðstöddum fjölmörgum fulltrúum erlendra útgáfufyrirtækja og hins vegar að markaðssetja Ísland sem miðstöð menningar og skemmtanalífs, einkum meðal ungs fólks beggja vegna Atlantshafs. Flugleiðir bjóða forsvarsmönnum allra helstu plötufyrirtækja heims gagngert til Íslands til að sjá hæfileikaríka íslenska tónlistarmenn á sviði. Gert er ráð fyrir að um eitt hundrað manns úr tónlistarbransanum í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan sæki tónlistarhátíðina auk fjölda blaðamanna. Tónleikar verða haldnir á mörgum stöðum samtímis í menningarborginni Reykjavík tónleikadagana, í Laugardalshöll og á nokkrum völdum skemmtistöðum. Talsverður áhugi reyndist vera erlendis fyrir tónleikunum í fyrra en alls komu rúmlega 500 manns á fyrstu Iceland Airwaves-tónlistarhátíðina.
mbl.is