Við ætlum að panta munsturbarn!

Vísindamenn segja að í framtíðinni muni foreldrar geta látið breyta fósturvísum væntanlegra barna sinna og valið sér útlit og jafnvel að einhverju leyti andlega eiginleika. Ekki eru þó allir sammála um kosti þess að bjóða upp á slíkt val.

Góðir foreldrar eru auðvitað ánægðir með börnin sín, hvernig sem þau nú eru eða haga sér. En innst inni langar fólk til að eiga börn sem líklegt er að gangi vel í lífinu eða jafnvel skari fram úr. Og nú er svo komið að erfðavísindin gera fólki kleift að hafa hönd í bagga með ýmsu sem áður var algerlega komið undir ákvörðunum Skaparans. Hrifningarópin "sjáðu hvað hún er lík mömmu!" og "nei, litli kúturinn er með nefið hans afa!" breytast í "dökkhærð og bláeygð, alveg eins og við báðum um enda hefðum við annars farið í mál við þá. Þeir lofuðu líka að hún yrði mjög góð í stærðfræði." Ekki er nú víst að fyrirheitið um stærðfræðigáfuna sé alveg innan seilingar, svo nákvæm verður hönnun munsturbarnanna eftirsóttu varla. En nú þegar er tæknilega hægt að ákveða fyrirfram hvort barnið verður dóttir eða sonur og hægt að skima DNA-erfðaefni í fóstrinu til að kanna hverjar líkur sé á ýmsum sjúkdómum. Þegar kortið yfir erfðamengið verður orðið fullskapað og búið að staðsetja öll gen sem hægt er á annað borð að staðsetja, sem gæti orðið eftir nokkur ár, verður hægt að beita mun fullkomnari skimun til að athuga hættuna á sjúkdómum og kvillum. Því verður oft hægt að fyrirbyggja þá með lyfjanotkun, ákveðnu mataræði eða líkamsþjálfun en að sjálfsögðu verður seint hægt að koma í veg fyrir allar meinsemdir. Uppeldishlutverkið breytist og óvæntum uppákomum í tengslum við heilsufar barnsins gæti fækkað verulega. Bláeyg eða brúneyg Og þegar menn hafa staðsett genin sem ákvarða hvort við verðum bláeyg eða brúneyg, ljóshærð að dökkhærð, hávaxin eða lágvaxin, mun verða hægt að panta ákveðið útlit. En ekki nóg með það, hugsanlegt er að mönnum takist að finna mörg gen sem munu hafa úrslitaáhrif á andlega eiginleika okkar. Sumir ganga svo langt að segja að hægt verði að finna og greina gáfugenið. Aðrir benda á að hér sé um mikla einföldun að ræða og gáfur og greind verði án efa til fyrir samspil margra gena. Gáfur séu margvíslegar og auk þess afar teygjanlegt hvernig skilgreina beri og mæla þær. Uppeldi, umhverfi og allar aðstæður þess sem smám saman þroskar og nær tökum á erfðafræðilegum eiginleikum sínum ráði því hvernig til takist um gáfnafarið og persónuleikann allan, hafi ekki síður áhrif en genin í erfðamenginu. Rithöfundurinn Jeremy Rifkin hefur gagnrýnt vísindamenn á sviði líftækni fyrir að ryðjast umhugsunarlaust inn á þetta svið án þess að íhuga afleiðingarnar. Ef þeir fikti við fósturvísana til að hanna börn séu þeir að hleypa af stað skriðu sem muni kollvarpa mörgum undirstöðum siðmenningar. Honum líst ekki á að foreldrar fari að panta börn sem fyrirfram verði látin hafa eiginleika sem foreldrar telji ákjósanlega. En verði það tæknilega hægt sé nær öruggt að það verði gert. "Í samfélagi sem er orðið vant fegrunarskurðaðgerðum og geðlyfjum er þetta ekki stórt skref," segir hann. Enn aðrir efast um að nokkrir foreldrar geti ákveðið hvað henti barninu best í lífinu af arfgengum, andlegum hæfileikum. Ef hægt verður að ákvarða að barnið verði harðjaxl í tilfinningamálum er það þá góður eiginleiki eða slæmur og fyrir hvern? Tímarnir breytist svo hratt að nokkrum áratugum eftir að að ákveðið var að búa til barn með ákveðinn eiginleika hafi nýjar aðstæður ef til vill gert allt aðra miklu verðmætari. Verður barnið ekki kúgað og bælt, stöðugt hrætt um að standa ekki undir væntingum foreldranna? Varla verður auðvelt fyrir þá að leyna því til lengdar að barnið hafi verið allt að því "hannað" af þeim í samráði við vísindamenn. Opinber nefnd í Bretlandi hefur varað við því að ný tegund af stéttaskiptingu gæti orðið niðurstaðan, annars vegar vandlega hönnuð börn, hins vegar þau sem fæðast með ýmsa eiginleika er ekki endilega koma sér vel í lífsbaráttunni. Loks hafa sumir bent á að skimunin geti leitt í ljós að líklega verði barnið ekki sérlega vel gefið, að það verði lágvaxið eða þá að það verði samkynhneigt. Skimunin gæti orðið örugg löngu áður en hægt yrði að nota genatækni til að breyta niðurstöðunni með því að krukka í erfðaefnið. Hvað gera foreldrar þá? Sumir erfðavísindamenn telja hugsanlegt að hægt verði að finna eina af ástæðum samkynhneigðar í genunum. Munu foreldrar verða undir þrýstingi ættingja og fordómum samfélagsins og freistast til að firra sig öllum vanda með því að láta ekki frjóvga eggið, losna við slíkan erfingja? Beitt aðferðum genalækninga En hvernig verður farið að því að hanna munsturbörn? Með aðferðum genalækninga sem enn eru á frumstigi verða flutt ákveðin gen með svonefndum genaferjum inn í mengi fósturvísisfrumunnar eða gen í frumum hvítvoðungsins nýfædda. Búið er að breyta nýju genunum þannig að þau laga eða endurskapa að nokkru leyti genamengi umrædds einstaklings. Hvaða gen bætast við eða hverfa fer eftir því hvaða eiginleikum menn telja sig vita að þau beri ábyrgð á. Þessu má líkja við að skipt sé um forrit í tölvu, forritin í frumunni eru þeir hlutar gensins sem framleiða prótínin. Ef til vill eru þau alls um milljón og þau framleiða stöðugt efnislega hlutann af okkur. Bandarísk hjón, Scott og Monique Collins, fengu fyrir þrem árum að ráða hvort þau eignuðust dreng eða stúlku. Ástæðan var að þau óttuðust að yrði barnið drengur myndi hann fæðast með erfðagalla, svonefndan vatnsheila en það er sjúkdómur sem nær eingöngu herjar á karla. Þau fengu vísindamenn við Genetics & IFV-stofnunina í Fairfax í Virginíu til að nota tækni sem byggist á aðferðum er notaðar eru m.a. við kvikfjárframleiðslu. Í frumum kvenna eru tveir X-litningar en karlar eru með einn X-litning og einn Y-litning. Það sem ræður því kyni barns er hvort karlinn lætur af hendi í sæðisfrumum sínum Y-litning; konan hefur ekki völdin í þessum efnum. Svo vill til að dálítið minna er af DNA-erfðaefni í Y-litningi en X-litningi. Mennirnir í Fairfax notuðu hættulaust litarefni til að merkja DNA-efnið í sæði Collins, velja og hafna. Þeir gátu því valið með nokkurri vissu sæði sem líklegra var til að innihalda eingöngu X-litninga. Síðan var beitt gervifrjóvgun og dóttirin Jessica kom í heiminn níu mánuðum síðar. Hægt er að beita þessari tækni til að forðast að barn fæðist með vissa erfðagalla sem vitað er að valda sjúkdómum, dreyrasýki er þekkt dæmi auk vatnsheila. En margir foreldrar leita til stofnunarinnar einfaldlega til að geta ráðið því hvort barnið verði drengur eða stúlka og sumir vísindamenn eru þeirrar skoðunar að þá sé verið að misnota tækni sem upphaflega hafi verið þróuð í lækningaskyni. Kenjar foreldra eigi ekki að ráða því hvernig hún sé nýtt. Og í sumum samfélögum, t.d. í Kína og á Indlandi, er kynjamisréttið miklu áþreifanlegra vandamál en á Vesturlöndum, nýfæddum drengjum er fagnað en í Kína eru stúlkur oft bornar út sem sést á því að karlar eru mun fleiri en konur í landinu. Hvernig munu slík samfélög fara með valdið til að ákvarða kyn fyrir frjóvgun? Foreldrar munu fara sínu fram En ekki er víst að slíkar skoðanir skipti máli til lengdar, foreldrar munu margir fara sínu fram og kaupa sér þá þjónustu sem þeir vilja fá. "Það geta orðið vandamál," segir dr. James Watson, sem hlaut á sínum tíma Nóbelsverðlaun fyrir að uppgötva uppbyggingu DNA-erfðaefnisins. "En ég held ekki að við getum látið stjórnvöld fara að skipa fólki fyrir um það hvernig fjölskyldu það skuli eignast." Fyrir tveim áratugum fylltust margir skelfingu yfir glasafrjóvgun og sögðust aldrei myndu nota hana, segir Lee Silver, líffræðingur hjá Princeton-háskóla. "En vaxandi þörf veldur því að samfélagið sættir sig við hana og nú er svo komið að allir sem eru ófrjóir heimta glasafrjóvgun," segir Silver. En komið hafa upp mörg erfið vandamál í tengslum við glasafrjóvgun, deilur um forræði yfir frystum fósturvísum sem voru frjóvgaðir en aldrei notaðir eru eitt dæmið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert