Miðstjórn vill að ESB-aðild verði tekin á dagskrá

Þing Alþýðusambands Íslands, ASÍ, verður haldið í íþróttahúsinu í Digranesi í Kópavogi í næstu viku. Þingið, sem er hið 39. í röðinni, verður sett að morgni mánudagsins 13. nóvember og því á að ljúka síðdegis fimmtudaginn 16. nóvember. Kjörbréf hafa verið send út til 539 þingfulltrúa innan 111 aðildarfélaga ASÍ en samkvæmt því sem kom fram á kynningarfundi forystumanna sambandsins í gær er von á um 520 fulltrúum frá um 100 félögum. Þeir munu fara með atkvæði um 77 þúsund félagsmanna ASÍ um allt land. Meðal erlendra gesta á þinginu verður framkvæmdastjóri Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga, Bill Jordan, sem kemur frá Birmingham í Bretlandi. Yfirskrift þingsins er "Nýtt afl - nýir tímar" þar sem skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar verða í brennidepli, staða hennar í samfélaginu í nútíð og framtíð og afgreiðsla á heildstæðu frumvarpi að nýjum lögum um Alþýðusambandið. Þetta verður síðasta þingið með þessu sniði þar sem lagt er til að framvegis verði haldnir ársfundir ASÍ í stað þinga sem haldin hafa verið á fjögurra ára fresti. Þingið mun nú standa í fjóra daga en ekki fimm eins og verið hefur. Meðal nýjunga í þingstarfinu er að málstofur verða haldnar um ýmis hagmunamál hreyfingarinnar og nýtt rafrænt kosningakerfi verður tekið í notkun, sem hannað er hér á landi af EJS hf. og nefnist Kjarval. Hver þingfulltrúi mun fá nafnspjald með strikamerki sem hann rennir í gegnum skanna sem verður við tölvur í tuttugu kjörklefum á þingstað. Kjarvali er ætlað að einfalda fyrirkomulag kosninga og auðvelda talningu sem hefur verið tafsöm vegna mismunandi vægis á bak við hvert atkvæði.

Fram kom á kynningarfundinum í gær að þinghaldið mun kosta ASÍ tæpar 11 milljónir króna, samkvæmt fjárhagsáætlun, og er þá kostnaður hvers verkalýðsfélags ekki talinn með. ASÍ greiðir t.d. fyrir ferðir fulltrúa til og frá þingstað. Fyrir kosningakerfið greiðir Alþýðusambandið EJS hf. um 700 þúsund krónur.

Styrking EES fjarlægur kostur

Fyrir þinginu liggur ein heildstæð tillaga miðstjórnar ASÍ að helstu áherslum og verkefnum sambandsins á næstu árum. Þar er m.a. vikið að Evrópumálum og lagt til af miðstjórn að umræðuna um aðild að Evrópusambandinu, ESB, verði að taka á dagskrá. Ísland þurfi að taka virkan þátt í Evrópusamstarfinu, annaðhvort með því að styrkja þátttökuna í EES eða með beinni aðild að ESB. Styrking EES-samningsins virðist vera "fjarlægur pólitískur möguleiki", eins og það er orðað í tillögunni. Þar segir einnig að umsókn Íslands um aðild að ESB hafi engan tilgang nema full alvara sé þar að baki og fyrir liggi upplýst samþykki þjóðarinnar.

Í ályktun um efnahags- og kjaramál segir m.a. að í upphafi áratugarins hafi verkalýðshreyfingin lagt sitt af mörkum til þess að skapa forsendur fyrir jöfnum hagvexti, stöðugu verðlagi og stígandi kaupmætti með kjarasamningum við samtök atvinnurekenda og loforðum frá stjórnvöldum um ýmsar aðgerðir. Síðan segir: "Því miður hefur stjórnvöldum ekki tekist að nýta sér þann grunn sem aðilar á vinnumarkaði hafa lagt og viðhaldið stöðugleikanum á síðustu misserum. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir aðila vinnumarkaðar, Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar hefur ríkisstjórnin ekki nýtt sér þau hagstjórnartæki sem hún getur beitt til að koma á varanlegum stöðugleika."

Allt aðrar leikreglur

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, sagði við Morgunblaðið að sambandið stæði frammi fyrir allt öðrum leikreglum en áður yrðu þær tillögur um skipulagsmál samþykktar sem lagðar eru fyrir þingið í næstu viku.

"Þessar leikreglur eiga að okkar mati að gagnast okkur betur í starfi og vera meira í takt við það umhverfi sem við hrærumst í og þá tíma sem við lifum. Að því leytinu einu saman er þetta tímamótaþing. Ef þetta gengur allt saman eftir þá er þetta síðasta þingið með þessu yfirbragði sem við höldum áður en við förum yfir í ársfundina. Ég held að langflestir, ef ekki allir, telji það mikið framfaraspor, að hægt verði á hverju ári að fjalla um mál sem óhjákvæmilegt er að taka ákvarðanir um í þessari æðstu valdastofnun verkalýðshreyfingarinnar. Þá gefst færi á því á hverju ári í stað þess sem við höfum búið við, á fjögurra ára fresti," sagði Grétar.

Grétar sagði að þingið væri nú haldið á þeim tíma sem horfur í efnahags- og kjaramálum væru ótryggar. Óvíst væri hvernig kaupliðir kjarasamninga héldu á næstu mánuðum.

Kaflaskipti í sögu ASÍ

Ari Skúlason, framkvæmdastjóri ASÍ, sagði við Morgunblaðið að þingið í næstu viku yrði eitt hið mikilvægasta í sögu ASÍ.

"Horfum til þess að fyrir ári vorum við með Alþýðusambandið í nærri því algjörri upplausn, skipulagslega séð. Við vorum með Rafiðnaðarsambandið og Samiðn fyrir utan. Þrátt fyrir allt erum við búin að koma hópnum nú saman og erum að leggja fram tillögur sameiginlega um skipulagsbreytingar, sem virðist hafa verið töluverð sátt um. Þingið á síðan eftir að fjalla um þær tillögur. Ef þetta tekst þá held ég að nokkuð mikil kaflaskipti verði í sögu ASÍ. Þá verðum við komin með umgjörð utan um sambandið sem er miklu betri en verið hefur. Við verðum sterkari í því að standa saman sem afl og uppfylla þær kröfur sem nýir tímar gera til okkar. Tímarnir og aðstæðurnar breytast ótrúlega hratt og við þurfum að hafa möguleika á því, skipulagslega, að takast á við þessar breytingar. Við erum að taka mjög stórt skref í þá átt," sagði Ari.

Á fundinum kom fram að umræða um byggða- og Evrópumál gæti orðið lífleg í næstu viku. Ari sagði að vissulega kæmu fleiri málaflokkar til umræðu, s.s. menntamál, en þetta væru heit mál um þessar mundir. Þannig hefði ASÍ ekki áður komið með jafnafgerandi tillögu um að taka aðild að ESB alvarlega á dagskrá.

"Við höfnum algerlega þeim hugmyndum að gera EES-samninginn að tvíhliða viðskiptasamningi. Rökin eru þau að EES-samningurinn fjallar um miklu meira en viðskipti með fisk og iðnaðarvörur. Hann fjallar í raun um allt okkar þjóðlíf. Alþýðusambandið hefur fengið góða stöðu innan Evrópusamstarfs verkalýðshreyfingarinnar í gegnum það að Ísland er aðili að EES. Þeirri stöðu myndum við tapa með tvíhliða viðskiptasamningi," sagði Ari.

Eins og áður sagði stendur ASÍ fyrir málstofum á þinginu. Þær verða átta talsins þriðjudaginn 14. nóvember og þar af þrjár eingöngu ætlaðar þingfulltrúum. Þar á að fjalla um forystufræðslu og nútímamiðlun upplýsinga innan verkalýðshreyfingarinnar og skyggnast inn í framtíðina með yfirskriftinni "Staða og sköpulag verkalýðshreyfingar framtíðarinnar". Fimm málstofur verða opnar öllum en þar á að fjalla um íslenskan vinnumarkað og Evrópu, heilsuvernd, byggðamál, ný tækifæri til náms og samræmingu atvinnuþátttöku og fjölskyldulífs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert