Óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap

Hæstiréttur dæmdi í dag að Tryggingastofnun ríkisins hefði verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans í því tilviki, er maki hans er ekki lífeyrisþegi. Hæstiréttur staðfesti því dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í fyrra. Einnig úrskurðaði Hæstiréttur, að Tryggingastofnun hafi verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap. Tryggingastofnun var dæmd til að greiða Öryrkjabandalagi Íslands samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Öryrkjabandalag Íslands höfðaði málið til viðurkenningar á því annars vegar að Tryggingastofnun hefði verið óheimilt frá 1. janúar 1994 til 31. desember 1998 að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekna maka, sem ekki var lífeyrisþegi, eins og áður sagði. Í dómnum segir að eftir gildistöku laga nr. 117/1993 hefði skort lagastoð til að mæla fyrir um það í reglugerð að skerða mætti tekjutryggingu vegna tekna maka öryrkja. Þá var talið að skýra bæri 76. gr. stjórnarskrárinnar til samræmis við alþjóðasamninga, sem ríkið hefur staðfest, þannig að skylt væri að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarks framfærslu eftir fyrirfram gefnu skipulagi, sem ákveðið væri á málefnalegan hátt. Yrði slíkt skipulag að uppfylla skilyrði 65. gr. stjórnarskrárinnar um að hver einstaklingur nyti samkvæmt því jafnréttis á við aðra sem réttar njóta, svo og almennra mannréttinda. Talið var að réttur sá sem almannatryggingalöggjöfin tryggði öryrkjum væri almennur og tæki tillit til jafnræðissjónarmiða milli þeirra sem eins væru settir í þröngum skilningi. Hins vegar væri mælt fyrir um mismunandi skerðingu lífeyris vegna tekna eftir því um hvaða tekjur er að ræða. Var talið að þrátt fyrir svigrúm almenna löggjafans til mats á því, hvernig lágmarksréttindi samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár skyldu ákvörðuð, gætu dómstólar ekki vikið sér undan því að taka afstöðu til þess, hvort það mat samrýmdist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Í dómnum var meðal annars vitnað til ákvæða alþjóða mannréttindasáttmála. Hins vegar var ekki talið unnt að draga ályktun um rétt hvers einstaks lífeyrisþega af niðurstöðu málsins. Fimm dómarar dæmdu í málinu, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein. Tveir síðastnefndu skiluðu sératvkæði. Heimasíða Hæstaréttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert