22 ára karlmaður dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir morð, nauðganir og líkamsárás

Rúnar Bjarki Ríkharðsson, 22 ára Keflvíkingur, var í dag dæmdur fyrir Héraðsdómi Reykjaness í 18 ára fangelsi fyrir morð á Áslaugu Óladóttur á heimili hennar í Skólavegi 2 í Keflavík 15. apríl sl. og fyrir nauðgun á vinstúlku hennar tvívegis, í febrúar og mars. Ennfremur fyrir líkamsárás á sambýlismann Áslaugar en Rúnar veitti honum stungusár. Dómarar í málinu komust að þeirri niðurstöðu að Rúnar Bjarki ætti sér engar málsbætur í þeim málum sem hann var ákærður fyrir.

Í dómnum kemur fram að aðfaranótt laugardagsins 15. apríls sl. hafi Rúnar Bjarki veist að Áslaugu, sem var 19 ára. Hann banaði henni með „fjölmörgum hnífsstungum í síðu, brjóst, höfuð og víðar á líkamanum," að því er segir í dómnum. Hann var ennfremur dæmdur til að greiða fórnarlömbum og aðstandendum alls 3,5 milljónar króna í bætur með vöxtum. Auk þess allan sakarkostnað, þar með talin þóknun lögmanna fórnarlamba sinna og málsvarnarlaun verjanda síns, rúmlega 1,1 milljón króna. Til frádráttar refsingu Rúnars Bjarka kemur óslitið gæsluvarðhald frá 15. apríl sl. Verjandi hans tók sér lögbundinn fjögurra vikna frest til að ákveða hvort málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Að því búnu féllust dómarar á kröfu ákæruvaldsins að Rúnar Bjarki yrði áfram hafður í gæsluvarðhaldi uns málinu lyki fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til 14. júní nk.

Nauðganirnar svívirðilegar og framdar á auðmýkjandi hátt

Í niðurstöðum dómaranna er Rúnar Bjarki fundinn sekur um að hafa þvingað fyrrverandi unnustu sinni til munnmaka við fiskitrönur á afviknum stað milli Sandgerðis og Keflavíkur 4. febrúar og einnig um að hafa nauðgað henni ítrekað á heimili hans í Keflavík 5. mars sl. Brot hans hafi verið svívirðileg og framin á auðmýkjandi hátt. Í seinna skiptið gætti fyrrverandi sambýliskona hans yngri systkina hans en foreldrar þeirra voru í útlöndum. Tók Rúnar Bjarki atburðinn upp á myndband og þykir það sem fram á því kemur sanna að um þvingun hafi verið að ræða. Segir í niðurstöðum dómaranna, að þeir velkist ekki í vafa um að Rúnar Bjarki hafi umrætt kvöld hótað stúlkunni og beitt hana líkamlegu ofbeldi og í beinu framhaldi af því henni til kynmaka eftir að hafa vakið hjá henni slíkan ótta um velferð sína að hún lét undan vilja hans. Þótt ekki væri það sannað þætti dóminum vætti benda til að Rúnar Bjarki hafi lagt á ráðin og undirbúið nauðgunina 5. mars með nokkrum fyrirvara. Teldist sú háttsemi engu að síður svívirðileg og fádæma auðmýkjandi fyrir fyrrverandi unnustu hans. Stúlkan sem féll fyrir hendi Rúnars Bjarka, að Skólavegi 2, hafði vitnað gegn honum í nauðgunarmálinu. Ruddist hann inn á heimili hennar við annan mann um miðja nótt og stakk hana 28 sinnum með hnífi víða í líkamann auk nokkurra grunnra yfirborðsrista.

Morðið tilefnislaust, hrottalegt og heiftúðugt

Segir í niðurstöðum dómsins að aðför Rúnars Bjarka að Áslaugu hafi verið tilefnislaus, hrottaleg og heiftúðug. Hafi hann ekki skirrst við að ryðjast inn á heimili hennar að næturlagi og stinga hana margítrekað í höfuð, háls, bringu og víðar í líkama hennar þrátt fyrir að hún væri varnarlaus, nakin inni á baðherbergi og hafi átt sér einskis ills von. Hróp hennar og köll hafi einungis orðið til að efla Rúnar Bjarka við ódæðisverk sitt. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að Rúnar Bjarki ætti sér engar málsbætur vegna morðsins og nauðgananna. Við ákvörðun refsingar væri þó litið til ungs aldurs hans og þess að hann hefur ekki áður sætt refsingu. Þótti refsing hans engu að síður hæfilega ákveðin 18 ára fangelsi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert