Björk tilnefnd til Golden Globe verðlauna

Björk tekur við Edduverðlaununum fyrr í vetur.
Björk tekur við Edduverðlaununum fyrr í vetur. mbl.is/Þorkell

Björk Guðmundsdóttir hefur verið tilnefnd til Golden Globe kvikmyndaverðlaunanna sem veitt verða í Hollywood 21. janúar. Björk er tilnefnd sem besta leikkona ársins fyrir leik sinn í hlutverki Selmu í Myrkradansaranum, en ásamt henni eru tilnefndar Julia Roberts fyrir Erin Brockovich, Joan Allen fyrir Contender, Ellen Burstyn fyrir Requiem For a Dream og Laura Linney fyrir You Can Count on Me.

Golden Globe verðlaunin eru veitt af samtökum erlendra blaðamanna í Bandaríkjunum. Þau eru nokkurs konar undanfari Óskarsverðlaunanna og oft fá þeir sömu verðlaun á báðum hátíðunum. Því þykir velgengni í Golden Globe vera góð vísbending um góðan árangur á Óskarsverðlaunahátíðinni. Kvikmyndirnar Gladiator, Erin Brockovich og Billy Elliot fengu flestar tilnefningar til Golden Globe en auk þeirra voru myndirnar Sunshine, Wonder Boys og Traffic tilnefndar sem besta myndin. Fyrir bestan leik í karlhlutverki voru tilnefndir Russell Crowe fyrir Gladiator, Javier Bardem fyrir Before Night Falls, Michael Douglas fyrir Wonder Boys, Tom Hanks fyrir Castaway og Geoffrey Rush fyrir Quills. Golden Globe
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert