Samningafundur heldur áfram í kvöld eftir trúnaðarmannafund kennara

Fundur samninganefnda framhaldsskólakennara og ríkisins stóð sleitulaust frá klukkan hálfníu í gærmorgun til miðnættis. Fundur hófst að nýju klukkan níu í morgun. Tveggja klukkustunda hlé var gert á viðræðum í dag vegna trúnaðarmannafundar kennara. Gert er ráð fyrir að viðræðum verði haldið áfram í kvöld.

Alvarleg tilraun er nú gerð til þess að leysa kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins. Ekki er ljóst á þessari stundu hvort samkomulag næst fyrir jól um meginlínur nýs kjarasamnings. Hins vegar er ekki talið útilokað að hægt verði að ganga frá nýjum samningi við Verzlunarskóla Íslands á morgun, síðasta virka dag fyrir jól. Að boði ríkissáttasemjara skýra samningsaðilar ekki frá gangi viðræðna né efnisatriðum þeirra eins og stendur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert