Sigur fyrir öryrkja og réttlæti í landinu

Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi fagna niðurstöðu Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins gegn Tryggingastofnun og telja hana mikinn sigur fyrir öryrkja og réttlæti í landinu. Um leið gagnrýna þeir stjórnvöld og telja að ekki hafi þurft að ganga þetta langt með málið. Formaður Frjálslynda flokksins, Sverrir Hermannsson, vill að einhverjir verði dregnir til ábyrgðar í málinu og telur að heilbrigðisráðherra ætti skilmálalaust að segja af sér.

Áhyggjuefni að Hæstarétt þurfti til að leiðrétta brotið

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur nokkrum sinnum lagt fram þingmál á Alþingi um afnám tekjutengingar við maka örorku- og ellilífeyrisþega. Þegar Morgunblaðið ræddi við hana um dóm Hæstaréttar sagði hún sín fyrstu viðbrögð vera þau að niðurstaðan væri sigur réttlætisins. Þetta væri einnig sigur fyrir sjónarmið Öryrkjabandalagsins og Samfylkingarinnar og ástæða væri til að óska öryrkjum til hamingju með niðurstöðuna.

"Það er ánægjulegt að Hæstiréttur skuli hafa komist að þessari niðurstöðu. Í raun er það áhyggjuefni að það þurfi hæstaréttardóm til að leiðrétta svona augljós mannréttindabrot. Ég hef margoft bent á þetta á Alþingi, ásamt öllum þingmönnum Samfylkingarinnar. Við höfum einnig lagt til við fjárlagagerð að afnema regluna sem heimilaði þessa tekjutengingu. Stjórnarmeirihlutinn hefur aldrei verið tilbúinn að samþykkja það. Maður veltir því fyrir sér hvort stjórnvöld átti sig ekki á því undir hvaða alþjóðasamninga og -sáttmála við höfum gengist. Þessi regla er arfur frá gömlum tíma og löngu úrelt. Hún er frá þeim tíma þegar sjálfsagt þótti að varpa framfærslu yfir á ættingja á þeim sem gátu ekki séð sér farborða með atvinnu. Það hefði átt að vera búið að afnema regluna fyrir löngu. Augljóslega var verið að brjóta mannréttindi á þessum hópi fólks," sagði Ásta Ragnheiður.

Hún taldi það ólíklegt að stjórnarflokkarnir gerðu frumvarp hennar að sínu. Þeir þyrftu þó að leggja fram sambærilegt mál. Ásta Ragnheiður benti á að það sama ætti að gilda um aldraða og ellilífeyri þeirra. Dómur Hæstaréttar myndi því hafa víðtæk áhrif. Hún sagðist vita mörg dæmi þess að tekjutenging við maka örorkulífeyrisþega hefði skaðað margar fjölskyldur, komið í veg fyrir hjónabönd og jafnvel valdið skilnuðum. Ásta Ragnheiður sagði ennfremur að niðurstaða Hæstaréttar væri sigur fyrir fjölskyldur lífeyrisþega. Hún vonaðist til að stjórnvöld myndu bregðast skjótt við dómnum og leiðrétta mál lífeyrisþega sem fyrst, áður en Alþingi kæmi saman að loknu jólaleyfi í lok janúar.

Að mörgu leyti tímamótadómur

Þuríður Backman á sæti í heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -græns framboðs. Hún sagði við Morgunblaðið að niðurstaða Hæstaréttar í málinu væri ánægjuleg en jafnframt hefði hún komið sér þægilega á óvart.

"Þetta hefur verið eitt af mörgum baráttumálum okkar í Vinstri hreyfingunni, að afnema eigi tekjutengingu bóta í tryggingakerfinu og að hver og einn verði metinn sem einstaklingur en ekki tengdur við maka. Út frá þeim reglum og lögum sem hafa verið í gildi hefur Tryggingastofnun talið sig getað tekjutengt bæturnar við maka. Samkvæmt því hefði maður talið fyrirfram að Hæstiréttur kæmist að annarri niðurstöðu. En óréttlætið var eftir sem áður viðhaft og þess vegna er ánægjan enn meiri með niðurstöðuna. Dómurinn er í raun rýmri en bein lagatúlkun segir til um. Ég man ekki eftir öðrum dómi þar sem ákvæði í stjórnarskránni vísar veginn. Það er framsækni sem maður hefði viljað sjá í fleiri dómum varðandi jafnrétti og mannréttindi. Þetta er að mörgu leyti tímamótadómur, sérstaklega fyrir þá sem minna mega sín, og umfram það sem margir töldu að næði fram að ganga," sagði Þuríður.

Hún sagði að lögin hefðu greinilega verið afgreidd og samþykkt í snarhasti á Alþingi á lokasprettinum fyrir jólin 1998. Vinnubrögðin væru oft og tíðum forkastanleg þegar lög væru keyrð í gegn með litlum undirbúningi og lítilli yfirvegun.

Ráðherra segi af sér

Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins, velti því upp, þegar viðbragða hans við dómi Hæstaréttar var leitað, hvort heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin öll þyrfti ekki að segja af sér vegna þessa máls. Stjórnvöld hefðu brotið lög á öryrkjum og öldruðum í mörg ár.

"Hvernig ætla þeir að taka á slíku framferði? Það er búið að hamast á þessu árum saman og svo kemur þessi niðurstaða. Svar heilbrigðisráðherra er að hún deili ekki við Hæstarétt. Það er mikil frétt, eða hitt þó heldur. Ég öfunda ekki þá stjórnarherra sem fá slíka rassskellingu eins og í dóminum felst. Ef að þetta væri venjulegt lýðræðisríki, þar sem að framkvæmdavaldið færi ekki sínu fram í öllu eins og því sýndist og þverbryti lög, þá hlyti þetta að koma harkalega niður. Að minnsta kosti hlýtur sá ráðherra sem aðalábyrgð ber að segja af sér, alveg skilmálalaust. Hvenær ætti að draga einhvern til ábyrgðar, ef ekki í þessu falli? Ég átta mig ekki á því," sagði Sverrir og vonaðist til að stjórnvöld hlýddu dómi Hæstaréttar og endurgreiddu öryrkjum það sem oftekið var af þeim.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert