Gull hætt að útvarpa

Norðurljós hf. stöðvuðu útsendingar útvarpsstöðvarinnar Gullsins 90,9 á gamlársdag. Jón Axel Ólafsson, yfirmaður útvarpssviðs Norðurljósa, sagði ástæðu lokunarinnnar vera uppstokkun og endurskipulagningu á rekstri.

"Stöðin einfaldlega borgaði sig ekki. Við erum að vinna að því að reka þetta fyrirtæki í harðri samkeppni við aðra auglýsingamiðla og getum augljóslega ekki haldið úti stöðvum eða rekstri sem ber sig ekki - það eina sem við höfum á að byggja eru tekjur frá auglýsendum og ef auglýsendur vilja ekki auglýsa á ákveðnum stöðvum af einhverjum ástæðum eða hlustendur skila sér ekki í skoðanakönnunum þá getum við ekki haldið þeim úti," sagði Jón Axel.

Gullið lék eldri dægurtónlist og var eina slíka stöðin eftir að Stjarnan FM 102,2, einnig í rekstri Norðurljósa, hætti útsendingum í nóvemberlok 2000. Þegar Stjarnan hvarf úr loftinu voru útsendingar útvarpsstöðvarinnar Rokk FM 97,7 einnig stöðvaðar "tímabundið" eins og Halldóra Ingimarsdóttir, verkefnisstjóri útvarpssviðs Norðurljósa, sagði við það tækifæri. Ekkert hefur síðan heyrst í Rokk FM. Spurður um afdrif stöðvarinnar sagði Jón Axel Rokk FM hafa verið "hálfgerðan bastarð sem varð aldrei nein útvarpsstöð" og það hefði aldrei staðið til að halda rekstri hennar áfram.

Þegar stöðvarnar tvær hættu útsendingum sagði Halldóra að engar fleiri skipulagsbreytingar væru framundan hjá útvarpssviði Norðurljósa en annað hefur nú komið í ljós. Spurður hvort hlustendur mættu eiga von á að fleiri stöðvar Norðurljósa myndu hætta á næstunni svaraði Jón Axel svo ekki vera enda hefðu þær stöðvar sem eftir væru góða markaðsstöðu bæði meðal auglýsenda og hlustenda.

Í fréttatilkynningu frá 21. júní 2000 segir að það sé ætlun Norðurljósa að halda áfram þeirri uppbyggingu sem orðið hefur á útvarpsmarkaðinum og ná enn betur til hlustenda og þar með til auglýsenda. Síðan hefur þremur stöðvum verið lokað og tvær verið sameinaðar í eina. Spurður hvort fækkun stöðva væri hluti þessarar uppbyggingar svaraði Jón Axel játandi og sagði félagið vera að styrkja dreifikerfi þeirra stöðva sem nú væru í rekstri um allt land. "Við erum að gera reksturinn hjá okkur þannig að við séum með hæft fólk í öllum störfum, fólk sem við viljum hlúa vel að. Við viljum frekar gera færri stöðvar góðar heldur en margar af veikari mætti. Það er augljóslega miklu hagkvæmara fyrir okkur að efla þær stöðvar sem við erum með í samkeppni við Ríkisútvarpið, sem er með lögbundin afnotagjöld, þannig að hlustendur okkar njóti betri dagskrár og auglýsendur betri árangurs auglýsinga sinna."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert