Norðmenn leyfa sýningu á Veldi tilfinninganna eftir 25 ára bann

Nagisa Oshima var staddur ásamt leikkonunni Uno Kanda á kvikmyndahátíðinni …
Nagisa Oshima var staddur ásamt leikkonunni Uno Kanda á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí sl. en mynd hans Gohatto (Taboo), keppti við Myrkradansarann um gullpálmann. mbl.is

Banni við sýningu kvikmyndarinnar Veldi tilfinninganna, eftir japanska kvikmyndaleikstjórann Nagisa Oshima, hefur verið aflétt í Noregi, 25 árum eftir að það var sett á. Deilur hafa staðið um hvort myndin sé sígilt listaverk eða hvort hún sé tilraun til að klæða klám í listrænan búning. Til stóð að sýna Veldi tilfinninganna á kvikmyndahátíð í Reykjavík 1978 en hætt við þegar sýnt þótti að saksóknari myndi leggja fram kæru ef af sýningu yrði. Sam-bíóin keyptu síðar sýningaréttinn og hafa öðru hvoru reynt að fá kvikmyndina leyfða til sýninga án árangurs.

Kvikmynd Oshima var víða bönnuð eftir útgáfu hennar árið 1976. Norska kvikmyndaeftirlitið bannaði sýningu myndarinnar í apríl 1999 en innflytjandi myndarinnar, Arthaus Film Foundation, áfrýjaði banninu og fékk því aflétt í dag. AP-fréttastofan hefur eftir Tom Loiland hjá norska kvikmyndaeftirlitinu að úrskurðurinn í dag breyti augljóslega því magni kynlífs sem heimilt er að hafa í kvikmyndum eigi þær að vera sýndar í norskum kvikmyndahúsum. Veldi tilfinninganna segir frá manninum Kichi og vændiskonunni Södu sem eiga í þráhyggju ástarsambandi sem stigmagnast uns nánast allur þeirra tími fer í sífellt hættulegri kynlífsathafnir. Þorfinnur Ómarsson, framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið í september sl., að í raun sé óskiljanlegt að enn skuli engum hafa dottið í hug að sýna Veldi tilfinninganna hér á landi því hún sé ekki klámfengnari en ýmislegt sem borið sé á borð okkar í dag, t.d. kvikmyndin Romance sem sýnd hafi verið í kvikmyndahúsum 1999 og sé fáanleg á myndbandaleigum. „Aldrei að vita hvað við gerum" Þorvaldur Árnason, forstöðumaður kvikmyndadeildar Sam-bíóanna, segir að öðru hvoru hafi verið reynt að fá heimild Kvikmyndaskoðunar til að sýna myndina í kvikmyndahúsum en þó séu nokkur ár liðin frá því það var síðast reynt. Hann segir að til sé sýningareintak af myndinni sem hafi verið textað en þó þyrfti að fara yfir það verði sótt um sýningarleyfi á ný. Hann útilokar ekki að það verði gert. „Það er aldrei að vita hvað við gerum úr því að myndin hefur verið leyfð til sýninga í Noregi," segir Þorvaldur. „Þarf bara eitt símtal" Sigurður Snæberg Jónsson, forstöðumaður Kvikmyndaskoðunar, segir að ekki hafi verið sóst eftir endurskoðun á Veldi tilfinninganna frá því hann tók við sem forstöðumaður fyrir rúmu ári. „Það þarf bara eitt símtal og þá endurskoðun við myndina," segir Sigurður. Hann bendir þó á að komist Kvikmyndaskoðun að þeirri niðurstöðu að myndin sé klámfengin og sýning hennar geti varðað hegningarlög þá sé hún ekki leyfð til sýninga. Sé myndin sýnd opinberlega þrátt fyrir þetta eiga sýnendur á hættu að verða kærðir fyrir dreifingu kláms. Sigurður bendir á að viðmið fólks um hvað sé klámfengið hafi mikið breyst á 23 árum. „Ef við teljum í myndinni vera efni sem er klámfengið, og við erum frekar frjálslegir á Íslandi í því sambandi, þá bendum við mönnum á það og afgreiðum ekki myndina," segir Sigurður og bætir við að þar með sé ekki heimilt að sýna myndina. Hann segir þau tilvik mjög fá þar sem Kvikmyndaskoðun komist að þeirri niðurstöðu að mynd sé það klámfengin að sýning hennar geti varðað hegningarlög. "Það var þannig að við gátum vísað málum til saksóknara sem síðan mat hvort sýning myndarinnar bryti í bága við hegningarlög eða ekki," segir Sigurður. Þetta ferli er ekki lengur svo þar sem saksóknari leggur ekki lengur slíkt mat á kvikmyndir heldur er það í höndum Kvikmyndaskoðunar. „Ég tel að við eigum að afgreiða kvikmyndir út frá okkar lögskipaða hlutverki. Við metum kvikmyndir m.t.t. sálarheill barna og unglinga út frá innihaldi þeirra. Þar með er talið efni sem getur raskað blygðunarkennd fólks. Þetta hefur alltaf verið dálítið erfitt að eiga við," segir Sigurður að lokum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert