Guðni Ágústsson tilkynnir framboð í embætti varaformanns

Guðni Ágústsson.

Guðni Ágústsson.
mbl.is

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra tilkynnti í dag að hann myndi gefa kost á sér í embætti varaformanns Framsóknarflokksins á landsfundi sem verður haldinn 16. mars. Guðni sagðist hafa tekið þessa ákvörðun í samráði við samstarfsmenn sína, fjölskyldu og vini. Hann sagðist bjóða sig fram í skjóli kjörorða Framsóknarflokksins, Fólk í fyrirrúmi, og legði sérstaka áherslu á baráttu flokksins gegn "sölumönnum dauðans", eða þeim sem selja fíkniefni.

Þá sagðist Guðni vilja afnema lögbundin afnotagjöld Ríkisútvarpsíns, og teldi eðlilegt að hluti tekna Ríkisútvarpsins komi á fjárlögum. Þá sagðist hann vilja minnka áhrif stjórnmálaflokka í skipun útvarpsráðs og vildi að félög fólksins í landinu, verkalýðshreyfing og atvinnulífið skipa í útvarpsráð. Í umhverfismálum vill Guðni að skipaður verði stór starfshópur til að fjalla um umhverfismál og þar verði landnot skilgreind út frá sjónarmiðum náttúruverndar annars vegar og nýtingar hins vegar, eða eins og hann orðaði það: að nýta land en níða ei. Hann sagði að miðhálendið væri perla sem ætti ekki sinn líka í veröldinni og um þá þjóðareign yrði að ríkja sátt.Á blaðamannafundinum viðraði Guðni þá hugmynd hvort ekki væri ástæða fyrir Framsóknarflokkinn að skipta um merki. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa fallegan fugl, veiðifuglinn fálka, sem reynist honum vel í að veiða fylgi. Hann hefði oft velt því fyrir sér hvort Framsóknarflokkurinn ætti ekki að fá sér nýtt merki sem mætti t.d. hafa í barminum við hjartastað. Þá hefði honum dottið í hug hvítur hestur. Þá væri hægt að syngja til þeirra sem ganga í flokkinn: Þú komst í hlaðið á hvítum hesti
þú komst með vor í augum þér
ég söng og fagnaði góðum gesti
og gaf þér hjartað í brjósti mér. Guðni sagði þetta hugleiðingu sína og væri spurning um markaðssetningu og hvernig flokkurinn kæmi sér á framfæri. Allir flokkar ættu sér góðan tilgang og þeir þyrftu að ná til fólksins með einhverjum hætti. Merki flokksins væri það þýðingarmikið. Ávarp Guðna Ágústssonar vegna framboðs til varaformannsembættis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert