Tilraun um beint lýðræði

Atkvæðagreiðslan um framtíð Reykjavíkurflugvallar reyndist ákaflega tvísýn. Alls tóku 30.219 manns þátt í kosningunni en 81.258 voru á kjörskrá, og var kjörsókn því 37,2%. 14.529, eða nærri 48,1%, greiddu atkvæði með því að flugvöllur yrði áfram í Vatnsmýrinni, en 14.913, eða 49,3%, vildu að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni og er munurinn aðeins 384 atkvæði.

Vitaskuld renndu menn blint í sjóinn hvað þátttöku varðaði þegar ákveðið var að efna til þessarar kosningar. Svisslendingar hafa verið einna ötulastir við að leggja stund á milliliðalaust lýðræði og láta borgarana ákveða stefnuna í einstökum málum. Eins og kemur fram í grein um fyrirkomulagið í Sviss í Morgunblaðinu í dag þykir 55% þátttaka í atkvæðagreiðslu góð á svissneskan mælikvarða. Mest fór þátttakan upp í 78% þegar Svisslendingar greiddu atkvæði um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu árið 1992 og höfnuðu henni eftir mikla undirbúningsvinnu stjórnvalda. Yfirleitt er þátttaka hins vegar á bilinu milli 30% og 45%.

Þetta sýnir að ekki ber að vanmeta að tæplega 40% kjörgengra manna í höfuðborginni greiddu atkvæði á laugardag og ber að varast að virða niðurstöðu þessarar kosningar að vettugi.

Hér var á ferð tilraun til að auka þátttöku borgaranna í töku ákvarðana. Vona verður að hér sé aðeins um að ræða upphaf og kjósendur fái ekki á tilfinninguna að framlag þeirra sé léttvægt fundið. Þeir, sem ekki kusu, ættu hins vegar að hafa hugföst þau orð breska sagnfræðingsins Arnolds Toynbees að það eru örlög þeirra að vera stjórnað af þeim, sem neyta atkvæðisréttar síns.

Framkvæmd þessarar rafrænu kosningar gekk tæknilega mjög vel og var atkvæðagreiðslan einföld. Kjósendur fengu afhent kort hlaðið einu atkvæði, sem stungið var í tölvu og mátti síðan velja um kostina tvo. Það eina sem virtist óljóst í hugum sumra kjósenda var að þeir þyrftu að staðfesta atkvæði sitt.

Auðir og ógildir seðlar voru nærri 2,6% og var það rakið til þess að margir kjósendur virtust einmitt gleyma að staðfesta.

Einhverjar spurningar vöknuðu um að einn tæknimaður myndi hafa aðgang að öllum þáttum tölvukerfisins og því yrði auðvelt að falsa niðurstöður kosninganna. Það er hins vegar ljóst að í öllum kosningum verður að treysta á mannlega þáttinn og það breytist ekki þótt tölvur komi til skjalanna.

Úrslit þessarar kosningar voru ekki afgerandi, en engu að síður fékkst niðurstaða. Þegar gengið hefur verið til lýðræðislegra kosninga er aðeins spurt hvernig atkvæði voru greidd, ekki hversu stór meirihlutinn var. Grundvallaratriðið er að leikreglurnar séu virtar. Um leið verður að líta á kosninguna sem skref í átt til milliliðalauss lýðræðis þar sem borgurunum verður í auknum mæli gefinn kostur á því að hafa bein áhrif á umhverfi sitt og framtíð.

VERKFALLI FRESTAÐ MEÐ LÖGUM

Alþingi samþykkti á ellefta tímanum í gærkvöldi frumvarp ríkisstjórnarinnar um að fresta verkfalli sjómanna til 1. apríl. Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar er skiljanleg og nauðsynleg í ljósi þess að með hverjum degi, sem verkfallið stendur, fara mikil verðmæti forgörðum. Nægir þar að benda á loðnugönguna, sem hafin var þegar sjómenn lögðu niður vinnu.

Lengi hefur staðið ágreiningur um ýmis þau atriði, sem Sjómannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandið annars vegar og útgerðarmenn hins vegar, deila um nú. Kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna hafa verið mjög erfiðar undanfarin ár og er þetta í fjórða skiptið á átta árum, sem sjómenn fara í verkfall. Oft hefur ríkisvaldið þurft að skerast í leikinn til þess að lausn fyndist.

Í þessari deilu hafa báðir aðilar nokkuð til síns máls og verður ekki gert upp á milli þeirra hér. Um er að ræða talsvert flókin mál og er verðmyndun aflans eins og áður eitt helsta ágreiningsefnið. Sjómenn krefjast þess að verðlagning aflans miðist við verð á markaði - með öðrum orðum að annaðhvort fari aflinn á markað eða verðið verði tengt markaðsverði - en útvegsmenn hafa ekki viljað fallast á það. Annars leggja sjómenn áherslu á verðlagningarkröfur, slysatryggingar og framlög í séreignalífeyrissjóð til samræmis við það sem aðrir hafa samið um, en útgerðarmenn leggja mestan þunga í að fá breytt ákvæðum um mönnun skipa, sem þeir fullyrða að geri að verkum að fækkun í áhöfn leiði til aukins útgerðarkostnaðar.

Það er hins vegar ljóst að nú er svo komið að uppsöfnuð kergja, sem sprottin er af þessari deilu og þá sérstaklega síðastnefnda atriðinu, er farin að standa samkomulagi fyrir þrifum.

Mánuðum saman hefur hvorki gengið né rekið og yfirvofandi verkfall virtist ekki knýja menn til dáða við samningaborðið. Fátt benti til þess að samningar næðust á næstunni, frekar en undanfarna mánuði. Það var hins vegar ljóst að ekki þyrfti langt verkfall til að valda verulegu tjóni. Það var því skynsamleg ákvörðun hjá ríkisstjórninni að fá verkfallinu frestað í skamman tíma með lögum frá Alþingi og stöðva gjaldmælinn á meðan sjómenn og útgerðarmenn reyna til þrautar að höggva á hnútinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »