Atli segir að ekki hafi verið um ásetning að ræða

Atli Helgason, t.h., í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun ásamt lögmanni …
Atli Helgason, t.h., í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun ásamt lögmanni sínum. mbl.is/Ásdís

Atli Helgason neitaði því alfarið fyrir dómi í morgun að um ásetningsbrot hafi verið að ræða þegar hann varð Einari Erni Birgissyni að bana í Öskjuhlíð í nóvember sl. Aðalmeðferð í máli ríkissaksóknara gegn Atla stendur nú yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Atli lýsti atburðarásinni morguninn 8. nóvember í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann sagði að þeir Einar Örn hefðu sammælst um að hittast í Öskjuhlíð og þar hefðu þeir fyrst rætt um framtíð verslunarinnar sem þeir ráku saman, starfsmannamál og fleira. Atli hefði ekki haft handbærar 3 milljónir króna, sem hugmyndir voru um að hann legði til fyrirtækisins. Upp úr því hefðu sprottið deilur sem mögnuðust og báður hefðu orðið æstir. Atli bar að Einar Örn hefði hrint sér en Atli ýtt við honum til baka. Hann lýsti því síðan að þá hefði allt "orðið brjálað", eins og hann orðaði það. Atli sagði Einar hafa slegið til sín og í kjölfarið hefði hann opnað dyr á bíl sínum og sótt þar hamar sem hann vildi ógna Einari með. Hann sagði að Einar hefði komið vaðandi að sér og kvaðst þá hafa slegið hann með hamrinum. Atli sagðist ekki ekki muna hvort höggin voru eitt eða tvö og sagðist ekki kannast við að hafa veitt Einari jafnmikla áverka og lýst er í ákæru. Atli sagðist ekki muna vel eftir atburðarásinni en sagðist hafa sett lík Einars í skottið á bíl sínum og ekið með það út á Reykjanes. Hann hugðist fyrst setja líkið í Grindavíkurhöfn til að reyna að láta líta svo út sem Einar hefði drukknað, en hætti við það vegna þess að hann taldi víst að það yrði ekki trúverðugt. Í framhaldi fór Atli með lík Einars út í hraun við Grindavíkurafleggjarann og faldi það þar. Atli neitaði því alfarið að um ásetningsbrot hefði verið að ræða og hefði hann ennfremur hugsað sér að segja frá atburðunum eða deyja frá þeim. Hann hefði þó ekki viljað deyja og skilja tvær fjölskyldur eftir í óvissu og þess vegna hefði hann ekki getað annað en sagt frá atburðinum og í kjölfarið aðstoðað lögreglu við að upplýsa málið. Hann greindi frá mikilli amfetamínneyslu sinni, og miklum fráhvarfseinkennum. Atli sagði að þeir Einar Örn hefðu verið mjög góðir vinir og þeim hefði ekki orðið sundurorða áður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert