Ljósbogi myndaðist við gangsetningu rafgreiningarkers

Sprenging varð við undirbúning gangsetningu rafgreiningarskauts í kerskála 3 í …
Sprenging varð við undirbúning gangsetningu rafgreiningarskauts í kerskála 3 í álverinu í Straumsvík í morgun. Lögregla lokaði svæðinu um tíma vegna slyssins. mbl.is/Jón Svavarsson

Samkvæmt upplýsingum frá álverinu í Straumsvík varð óhapp við undirbúning fyrir gangsetningu rafgreiningarkers í kerskála 3 er varð þess valdandi að sprengingin varð í morgun. "Ljósbogi (skammhlaup) myndaðist þar sem tveir starfsmenn verktaka voru að störfum. Þeir slösuðust báðir og voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Hér er um að ræða venjubundin verk sem vinna þarf fyrir gangsetningu allra kera. Á hverju ári eru gangsett um 100 ker. Verið er að kanna hvað þarna fór úrskeiðis," segir í tilkynningu frá Íslenska álfélaginu hf í Straumsvík.

Í fyrstu var talið að fjórir starfsmenn hefðu slasast, en þeir voru tveir og voru þeir báðir fluttir á Landspítalann við Hringbraut með brunasár. Mikill reykur myndaðist við sprenginguna en enginn eldur. Tilkynnt var um slysið klukkan 9:26 í morgun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert